Friday, December 22, 2006

Af jólaklippingu og hangikjöti

Íransfarar í n.k. febrúar hafa spurt hvenær standi til að hittast til að fylla út áritunarumsóknir og því er til að svara að við hittumst um 10.janúar , sendi nánar um það eftir áramót. Þá þurfa allir að koma með tvær passamyndir og konur skulu bera slæðu á þeim myndum. Vegabréf og þessi blöð verða send út jafnskjótt og síðasti Íransfarinn, sem starfar erlendis, kemur til landsins um 20.jan.

Ég ætla að skreppa til Lýbíu í viku frá 14.janúar til 22. janúar. Þetta er rannsóknarleiðangur til að skoða suma þeirra staða sem við heimsækjum haustið 2008. Um leið og ég kem þaðan skutla ég vegabréfunum til stimplunar í Noregi, væntanlega með góðri hjálp íslenska sendiráðsins í Osló eins og í fyrri skipti.

Fregnaði í gær að "einhverjir" sem ég veit ekki hverjir eru væru að fara til Írans og verð á átta daga ferð (!) þar af tveir í Dúbaí væri 300 þúsund kr. Það er sem svarar helmingi dýrara en ferðir VIMAfélaga. Skal tekið fram að við erum alls staðar á bestu hótelunum og flest innifalið nema tips til leiðsögumanna úti og bílstjóranna, svo og vegabréfsáritunin. Ég veit ekki hvað er innifalið í þessari 300 þús. króna ferð en velti létt fyrir mér hvað er hægt að gera á fjórum dögum í Íran og á ekki einu sinni að líta við í Persepolis. Skringilegt og spurning hvort þetta er fyndið. Held að þessi ferð hljóti að vera á vegum "opinberra aðila."

Býst við að hafa fund með Kákasuslandafólki í byrjun febrúar. Tveir til viðbótar geta slegist í förina þá því ég fékk aukasæti. Annars er ekki ætlunin að hafa hópinn þann stóran en mannval er hið mesta eins og raunar jafnan í ferðunum.

Minni áhugasama arabískumenn á að Mímir-símennt ætlar að hafa arabísku 2 á boðstólum. Þeir tímar hefjast 29.janúar og arabíska 1 byrjar svo 30.jan. Ég ætla að hafa tvo tíma í viku í hvoru námskeiði og þrjár kennslustundir í senn. Hafið samband við Mími um þetta.

Við Vera ömmustelpa fengum sérstaklega skemmtilegt jólakort í gær frá Margréti Kolka og Þórhalli, sem var málað eftir mynd sem hún tók í Wadi Rum. Mjög fallegt. Þakka líka fyrir önnur kort og fullt af myndum sem menn hafa sent mér og falleg orð.

Nú fer ég í jólaklippinguna í einum grænum og kaupi svo hangikjötið. Skrifa aðeins á morgun enda er það merkilegur dagur í mínu lífi. Altso. Heyrumst.

Jólagjafahugmynd - nú eða í afmælis eða brúðargjafir
Stöku sinnum hvarflar að mér að ég sé ekki nógu snögg að kveikja á snjöllum hugmyndum. Það er sem betur fer ekki mjög oft.
En í mig var hringt áðan og spurt hvort ég ætti gjafakort johannatravel. Þar voru hjón á línunni sem höfðu ekki getað látið sér detta í hug neitt íðilsnjallara en að gefa ungu pari upp í ferð með VIMA á árinu 2007. Þetta hlaut auðvitað glæsilegar undirtektir hjá mér og Vera, aðstoðartæknistjóri, situr nú við og útbýr gjafakort handa þessu unga fólki.

Auðvitað er þetta brilljant eins og Vala Matt mundu komast að orði.

Og hafið þetta hugfast þegar þið leitið að gjöfum á árinu vegna hátíðlegra tilefna þó svo að kannski séu flestir búnir í jólagjafastússinu nú. Og þó. Kannski eru einhverjir á síðustu stundu og þá er bara að bjalla á mig.

No comments: