Tuesday, February 13, 2007

Aldrei hefur hann kynnst jafn vinalegu höfðingsfólki og í Íran

Góða kvöldið
Þetta bréf fékk ég fyrr í dag frá fyrverandi arabískunemanda mínum, Einari Val Gunnarssyni. Hann er mikill ferðadrengur og var m.a. nýlega á flakki í Íran. Ég vona hann taki það ekki illa upp þó ég birti þetta en mér finnst ástæða til þess þar sem ýmsilegt sem hann segir um fólkið sem varð á vegi hans á erindi til fólks, einmitt um þessar mundir.

Skrifa svo meira seinna í kvöld

Sæl Jóhanna.

Er kominn frá Íran þar sem ég eyddi 3 vikum einn á flandri og gisti á
allra ódýrustu hótelunum. Byrjaði á því að fljúga til Ahvaz sem er nú
svosem ekki merkileg borg uppá að skoða en hefur ríka sögu. Fór til
smábæjarins Shush sem hefur að geyma líkneski Daniels. Einnig er þar að
finna virki sem Franskir fornleifagrafar byggðu. Fór svo út fyrir bæinn að
sjá Choqa Zanbil.

Því næst kom ég mér til Shiraz og skoðaði borgina (t.d. karim Khani virkið
og dvalarstað Hafez ljóðskáldsins) ásamt að sjá Persapolis. Þar næst fór
ég til Yazd og skoðaði gamla hlutann, virki alexanders mikla og fleira.
Fór til Chak Chak sem er mikilvægasti zoroastrian pílagrims staðurinn í
Íran og einnig til Meybod að skoða Kamel stoppistöðina fornu, pósthúsið,
dúfnahúsið og "ísskápinn". Endaði Yazd hringinn á því að skoða gömlu
borgina í Karanaqh.

Svo var komið að Esfahan. Hún er náttúrlega stórglæsileg og toppurinn á
ferðinni. Skoðaði einnig armenska hluta borgarinnar og Vank kirkjuna.
Því næst fór ég til Kashan að skoða khan-e Tabatabei og khan-e Ameriha
íbúðirnar. Kom svo við í borginni Qom og endaði ferðalagið í Tehran þar
sem ég skoðaði nánast öll söfn borgarinnar og allt sem hægt var, enda 5
daga í henni.

En það sem stendur náttúrulega uppúr eftir þessa ferð er fólkið! Þvílík og
önnur eins gestrisni hef ég aldrei kynnst. Ég fékk heimboð og
heimagistingar, Mér var fylgt í gegnum borgi og bæi án nokkurrar
þóknunnar. Ræddi um allt við jafnt unga sem aldna og meira að segja einn
Mullah sem var samferða mér frá Qom til Tehran. Ég fékk mikla innsýn inn í
hugarheim Írana enda ómetanlegt að vera boðið inná heimili þeirra í mat
og gistingu. Umræðan var um jafn viðkvæm mál einsog stjórnmálin frá bæði
hlynntum og andvígum, frelsið, atvinnuleysi, réttindi kvenna, áfengið,
fíkniefnavandann, bandaríkin, kjarnorkuna, osfrv. Ég fékk að vita mikið
um byltinguna bæði fyrir og eftir, já og hvernig trúarofstækismenn frá
borgunum Qom og Mashhad komast til valda á kostnað fólks með menntun og
hæfileika, einsog einn sagði. Ég gæti haldið endalaust áfram.
En gestrisnin og hjálpsemin er það sem stendur uppúr og kynntist ég
frábæru fólki sem ég mun halda sambandi við í framtíðinni. Ég á nánast
heimboð í hverri einustu borg er ég fer næst til Íran. Algjörlega
ógleymanleg ferð.

Kveðja,
Einar Valur

2 comments:

Anonymous said...

Sæl Jóhanna

Gaman að þessu. Ég vona að hann skrifa litla grein í dagblöðin. Hann ætti endilega að gera það. Það hafa undanfarið verið smápistlar í Fréttablaðinu að mig minnir (frekar en Blaðinu) frá ungri íslenskri konu sem er í Íran. Hún hefur sömu sögu að segja varðandi fólkið. Eins og við öll. Það sem óbreyttir íslenskir borgarar hafa að segja er miklu skemmtilegra efni enn fréttir af einhverju brölti slæðuklæddra alþingiskvenna á Öryggisráðs-atkvæðaveiðum í Sádi-Arabíu.

Hitti ekki á þig en setti vegabréfið mitt inn um lúguna hjá þér í morgun. Vona að það hafi komist til skila.

Vildi að ég væri líka á leiðinn til Íran...

Rúrí

Anonymous said...

Jú, takk Rúrí, vegabréfið skilaði sér.
Einn hefur bæst við í Kákasusferðina, þökk sé Evu Júlíusdóttur. Svo nú þarf ekki að hækka ferðina.

Mér þykja pistlar ísl. stúlkunnar í Fréttablaðinu á sunnudaginn líka afar skemmtilegir. Gaman hvernig hún fjallar um málin.
Kv
JK