Friday, April 27, 2007

Miðar til Kákasusfaranna - hefði Saddi ekki orðið sjötugur í dag

Sæl öll
Kákasuslandaferðalangar hittust í gær að fá sína miða og ferðagögn. Allt gekk það eins og í sóma. Ítreka að við hittumst kl. hálf sex á mánudagsmorgun. Ekki síðar. Á mínútunni og efast ekki um að það verði í lagi. Muna að skoða vel farangursmiðann til að ganga úr skugga um að farangur hafi verið tjekkaður alla leið til Baku.
Hvet ykkur til að skilja eftir hjá ættingjum og vinum slóðina á síðunni svo menn geti fylgst með ferðinni og sent kveðjur www.johannaferdir.blogspot.com


Svo er það aðalfundurinn á morgun kl 14 í Kornhlöðunni. Vonast til að sjá sem allra flesta félaga og gestir eru velkomnir. Verður gaman að heyra og sjá Gísla B. tala um Óman og svo flyt ég náttúrlega mína skýrslu þar á undan. Mörður Árnason Vimafélagi hefur fallist á - með fögnuði ábyggilega- að taka sér smáhlé frá framboðsfundum og vera fundarstjóri. Það er hollt og gott fyrir hann.

Þá tók ég eftir að í Séðu og heyrðu í gær er viðtal við Sigurlaugu M. Jónasdóttur um Jemen/Jórdaníuferðina á dögunum og fínustu myndir með. Verð að viðurkenna að ég festi kaup á ritinu - svona til að setja í skjalasafnið skulum við segja.

Myndakvöld Jemen/Jórdaníufara verður fljótlega í júní. Nánar um það síðar

Mig minnir að Saddam Hussein hefði orðið 70 ára í dag. Ég hugsa að ýmsir Írakar muni eftir því og jafnvel minnist hans þar sem ástandið í landinu hans er nú langtum skelfilegra en það var á umdeildum stjórnarárum hans. Piltur í Menntaskólanum á Akureyri hafði samband við mig um daginn og var að skrifa ritgerð um hann. Fróðlegt að vita hvernig vitnisburð hann fær. Og myndin af Saddam er alltaf á veggnum hjá mér og verður ekki tekin niður í bráð hvað sem öðru líður.

No comments: