Saturday, May 26, 2007

Getum við ekki safnað 15 milljónum?

Góðan daginn

Ég fékk bréf frá Nouriu Nagi í Sanaa áðan og bréf til allra styrktarmanna sem ég pósta til þeirra eftir helgina. Hún segir frá því að krakkarnir séu nú önnum kafnir í prófum en síðan er sumarfrí og YERO ætlar að efna til nokkurra leikjanámskeiða o.þ.h fyrir krakkana.

Þá segir hún sömuleiðis frá því að krakkarnir hafi efnt til leiksýningar skömmu áður en prófaundirbúningur hófst, þau gerðu leiktjöld og sömdu texta og svo var þetta flutt fyrir foreldra og þá styrktarmenn sem eru í Jemen og gerði mikla lukku. Ennfremur minnist hún á litlu læknastofuna sem komið hefur verið fyrir á lóð YERO - og þeir Jemenfarar sáu sem fóru í síðustu ferð. Þar vinnur í sjálfboðavinnu þýskur læknir og bandarískur hjúkrunarfræðingur sem fylgjast með heilsufari barnanna og þó ekki síður foreldra þeirra en heilsugæslu í Jemen er afar áfátt.

Þetta bréf sendi ég sem sagt til allra styrktarmanna eftir helgina.

Við vitum að miðstöðin sem Nouria hefur nú er orðin of lítil og auk þess er hún í leiguhúsnæði og því væri langtum meira öryggi í því ef samtökin gætu átt eigið húsnæði. Aðspurð sagði Nouria mér að slíkt hús mundi trúlega kosta um 14 -15 milljónir króna.
Gera menn sér grein fyrir því að legðu til dæmis þrjú þúsund manns fram fimm þúsund krónur væri upphæðin komin í hús.
Ég ætla að taka það upp á stjórnarfundi eftir helgina hvernig við getum staðið að þessu því þarna mundum við vinna stórvirki sem breytti lífi milljóna jemenskra barna sem búa við bágan og ömurlegan hag sem er engin leið fyrir okkur að skilja nema sjá með eigin augum.

Veltið þessu fyrir ykkur. Hugmyndir eru vel þegnar og ég beinlínis bið um þær.
Reikningsnúmerið er 1151 15 551212 og kt. 1402403979.

No comments: