Thursday, January 3, 2008

Nú á enginn afmæli lengur



Að minnsta kosti hef ég ekki fengið fyrirspurn um eitt einasta gjafakort í háa herrans tíð. Athugið þetta, okkur munar um allt hver svo sem upphæðin er. Þakka ýmsum sem hafa lagt inn á Fatimusjóðinn nýlega. Það er drengilegt.

En sem sagt: Gleðilegt og gott ár og takk fyrir liðna tíð.
Er að stússa í vegabréfsmálum Íranfara. Ítreka að þeir hittast 12.janúar og ég hef sent þeim leiðbeiningar þar að lútandi.
Bið þá að tilkynna sig til mín. Muna passamyndir og vegabréfin. Það er skriffinnska í sambandi við Íran sem stingur í stúf við það hversu auðvelt er svo að ferðast um það herlega land. En hva. Við kippum okkur ekki upp við það.
Þeir sem geta ekki komið á fundinn verða ENDILEGA að láta mig vita.

Þá er myndakvöld Ómanfara 10.janúar og hef ekki fengið svar frá öllum. Vonast til að sem ALLRA flestir úr þeim dægilega hópi streymi á vettvang.

En fyrst er fundur Kvennahópsins góða þann 8.jan. n.k. um Jemenmál og hlakka til þess og vonandi fullt af góðum og raunsæjum hugmyndum. Eða óraunsæjum.


Nouria er í óða önn að útbúa plögg fyrir nýju styrktarmennina og ég sendi það til ykkar jafnskjótt og þau berast. Einnig nöfn þeirra tíu barna í viðbót sem eru komin með stuðningsmenn en ég hef ekki fengið nöfn krakkanna enn.

Svo fer fullorðins og saumanámskeiðið að hefjast í lok mánaðarins. Þegar ég var í Sanaa í desember sl. hitti ég þessar konur. Þær hafa flestar staðið sig vel. Nouria greiðir þeim smálaun vikulega og það hefur hleypt þeim mörgum kappi í kinn. Auk þess eru ýms fyrirtæki farin að panta smáhluti hjá þeim og allt er það til sóma og prýði.
Nokkrar munu halda áfram, þam Khan Bo Bellah og Ragnhildur Guðm. hefur þegar greitt fyrir hana. Aðrar verða ekki með af ýmsum ástæðum og sumar detta út en aðrar koma í staðinn, jafnvel á miðju námskeiði.

Þess vegna kom okkur Nouriu ásamt um að í stað einstaklingsstuðnings hjálpi fólk til með sama hætti og áður, þ.e. 200 dollara framlagi og það renni til þess að amk. 24-26 konur fái styrk til að sækja námskeiðið. Ég vona að þeir sem hafa lagt þessu lið styðji málið áfram þó svo þetta verði lagt í púkk en ekki einstaklingsstuðningur vegna þess hve sumar eru óstabílar. Ekki af áhugaleysi heldur vegna bágra aðstæðna, heilsuleysis og báginda.
Það er sem sé tillaga mín hér og nú að þessi nýi háttur verði á hafður.

En svo eru það afmælin. Mér finnst þið ættuð að senda gjafakort. Og/eða minningarkort. Bara hringja og ég skelli korti í póst og þið borgið inn á 551212.

Svo hittist stjórn VIMA á laugardag. Dóminik ritstjóri Fréttabréfsins okkar kemur líka og Fréttabréfið ætti að koma út um miðjan mánuð eða svo.
Bless í bili og látið nú heyra frá ykkur

No comments: