Monday, March 3, 2008

Hér er margt og mikið að segja - Jemenstyrktarmenn fá ný börn


Ólöf og María með stúlkurnar sem þær styðja nú þriðja árið í röð og hittu í Sanaa sl. vor.

Góðan daginn

Í gær var líf í tuskunum í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu því fjórir hópar komu þar til fundar. Mæting var góð en nokkra vantaði þó sem ég bjóst við að kæmu.
Allt fór fram í friði og andans gleði og eindrægni held ég að megi segja.

Kl 2 komu Íransfarar og fengu sína miða og ferðagögn og enn brunnu spurningar á mörgum, einkum er klæðaburðurinn konum hugleikinn. Kannski hef ég gert of mikið úr því stússi en auðvitað er mikilvægt að þar sé allt skv reglum okkar góðu félaga í Íran. Einn var veðurtepptur á Ísafirði og ein hjón skíða nú sem óðast í útlöndum en þau fá send sína miða. Fyrirvarinn er ágætur.
Legg mikið kapp á að menn mæti eigi síðar en kl. 6 um morguninn 14. mars og að allir muni eftir að tjekka farangur alla leið.

KL. 3 komu Sýrlands/Jórdaníufarar en meirihluta þess hóps hefur Maja Heiðdal smalað í af skörungsskap. Þar þurfti að bæta við nokkrum og veit ekki betur en sex bætist þar við svo verð helst eins og í áætlun er. Allt í tilhlökkun þar.

Kl. 4 komu svo Jemen/Jórdaníufarar í fyrri ferð í apr/maí og var farið yfir áætlun og greiðslur en langflestir hafa lokið greiðslu. Elskulegur hópur og kátur og allt í standi nema við söknuðum nokkurra sem eru ákveðnir og hafa einhverra hluta vegna forfallast.

Kl. 5 var svo seinni Jemen/Jórdaníuhópur. Þetta er lítill hópur en virðist valinn maður í hverju rúmi. Gott væri þó ef við gætum bætt við fjórum þar. Ef ekki þá hækkar verð um tíu þúsund og fullur skilningur var á því.

Á boðstólum voru egypskar döðlur og kökur, súkkulaðirúsínur og kex, te og kaffi og var allt hið mesta fjör. Edda, Gulla og Þóra J. hjálpuðu mér við þetta enda mættu held ég hátt í 90 manns á fundina fjóra
Takk fyrir góða samverustund öll

Eins og fram hefur komið voru allnokkur Jemenbörn sem ekki komu eftir Eid al Adha og Núría hefur nú sent mér lista yfir nýja krakka og ég vona að þeir sem höfðu greitt fyrir sín börn fallist allir á að taka aðra krakka. ENGIN ÞESSARA 18 hefur stuðningsmann. Ath. það
Þar á meðal eru nokkur sem koma nú aftur eftir hlé og vantar stuðning. Einn drengur sem sækir miðstöðina er með krabbamein og býr hjá frænku sinni í Sanaa til að geta fengið meðferð.
Þetta eru samtals átján börn og ég ætla að leyfa mér að senda þeim sem hafa ekki fengið börn og velja þau án samráðs við ykkur.
Ég vona það sé í lagi. Þeir sem hafa lýst vilja til að taka börn og hafa ekki fengið nöfn, s.s. Ólöf Magnúsdóttir, María Árnadóttir og einhverjir fleiri vinsamlegast staðfesti vilja sinn. Ath að langflestir hafa greitt en ég sendi hverjum og einum bréf um það.
Öll þessi börn búa við ákaflega erfiðar aðstæður, æði mörg eiga atvinnulausa feður og reyna öll- samhliða skólanum að hjálpa fjölskyldunni.
Vona að þið treystið mér til að skipa þessum börnum á stuðningsfólk.

No comments: