Tuesday, March 4, 2008

Líbíuáætlun tilbúin - bækur til sölu og allt í byggingarsjóðinn


Frá klettaristunum í ævindýradalnum Wadi Makandusj

Hér er komin Líbíuáætlun í megindráttum en nákvæmar dagsetningar hef ég ekki fyrr en allir áhugasamir hafa látið vita og greitt staðfestingargjaldið 25 þúsund krónur. Menn eru eindregið beðnir að gera það hið ALLRA fyrsta. Tek fram að allnokkrir hafa gert það og þakka fyrir það.
Þessi ferð hefur vakið hellings athygli og nokkurn veginn óhætt að slá á að farið verði um 8.okt og heim 21.-22.okt. Fáist nægileg þátttaka í aðra ferð mun hún hefjast í kringum 24.okt- 26.okt.
Fjöldi í ferð að hámarki 22.
Trúlegt að við förum með eftirmiðdagsflugi og gistum í London á útleið.Það hentar betur vegna tenginga. Stúlkan okkar hjá Icelandair sem sér um okkar mál lofar hagstæðum prís.

Ferðalýsing með léttum fyrirvara
1.dagur Flogið um London. Gist þar á flugvallarhóteli

2.dagur
Morgunverður
Um morguninn með British Airways til Tripoli í Líbýu. Þar er gengið frá vegabréfsáritunum og svo rakleitt á hótel. Trúlega gist á Hótel Sindbað sem er nýtt, notalegt og hreinlegt og á prýðilegum stað. Góð herbergi.
Móttökukvöldverður.

3.dagur Morgunverður. Rólegur dagur í Tripoli til að kanna handverks og gullmarkaði. Mætti heimsækja nokkrar moskur og markverða staði í leiðinni. Gist á Sindbaðhóteli.
Tripoli er björt og falleg borg með stórum grænum svæðum og fögrum torgum. Merkja má ítölsk áhrif í byggingum enda réðu Ítalir hér í nokkra áratugi á 20.öldinni. Ekki skortir heldur myndir og málverk ef leiðtoganum Gaddafi sem ríkt hefur síðan 1969.

4.dagur Morgunverður Dagsferð til Leptis Magna sem er 110 km austur af Tripoli. Þetta er einhver merkilegasti rústastaður frá tímum Rómverja utan Ítalíu.
Kvöldverður utan hótelsins.

5. dagur. Morgunverður Keyrt til suðausturs til vinjabæjarins Ghadames sem er einkum byggður Berbum. Ghadames er einstaklega notalegur bær. Um kvöldið í sólarlagsferð úti í mörkina, þar sem við borðum nýbakað brauð undir stjörnum.
Gistum á mjög notalegu hóteli í útjaðri Ghadames

6. dagur. Morgunverður.Keyrum út á sandana og horfum á berbadansa og söngva. Skoðum gamla bæinn sem er einstakur hvað skreytingar og byggingarlag snertir. Hann er á Heimsminjaskrá UNESCO og á sér mörg þúsund ára sögu.

7 dagur. Eftir morgunverð er stefnt aftur til Tripoli. Við komum við á nokkrum stöðum þar sem byggingarlag er óvenjulegt, m.a. í Kabaw og Nalut. Einkar skemmtilegir bæir. Ef tími vinnst til skoðum við einnig bæinn Gheryan með athyglisverðum neðanjarðarhúsum og íbúar þar í grennd eru einnig þekktir fyrir fallega keramikgerð.
Gist í Tripoli.

8.dagur
Morgunverður. Flug til Sabha, eyðimerkurborgar í suðurhlutanum.
Þaðan er lagt upp á jeppum áleiðis til Akakusfjalla sem eru einstök að fegurð og fjölbreytileika og alls konar forsögulegar minjar. Keyrum þarna um og alls staðar blasir dýrðin við. Gist í eyðimerkurbúðum, þar er mjög þokkaleg aðstaða. Sturtur og klósett skammt frá

9. dagur Morgunverður
Við verðum allan daginn í skoðun á Akkakus svæðinu og komumst þó ekki yfir nema hluta svæðisins. Gistum aftur í búðunum.

10.dagur Morgunverður
Við förum um ýmsa dali og sækjum heim hina fornu höfuðborg Germa. Á þessum slóðum búa einkum Túaregar og við komumst væntanlega í ´heimsókn til fjölskyldu. Tuaregar eru víða í löndunum í kring og eru hinir upphaflegu íbúðar þessara landa.Gistum í Tiwabúðum

11.dagur Morgunverður Nú er stent til Wadi Medkandusj sem er tólf kílómetra langur dalur þar sem fornar rúnaristur prýða dalinn. Þetta er dularfullur staður og spennandi. Gistum í Tiwa búðum

12.dagur. Við förum til Ubari um sandöldur og skoðum einstaklega fögur eyðimerkurvötn og skrítið landslag. Síðdegis aftur til Sabha og gistum þar á Hótel Afríka.

13.dagur Morgunverður og flug aftur til Tripoli.
Menn hvílast vel eftir eyðimerkurferðina. Ef til vill ferð á Þjóðminjasafnið síðdegis

14. dagur.
Morgunverður
Frjáls dagur í Tripoli

15. Brottför til flugvallar og með British Airways til London.Eftir skamma bið í London heim til Íslands

Verð með öllum fyrirvara 275 þúsund.

Innifalið:
Flug til og frá London og áfram til og frá Tripoli
Gisting í London og morgunverður
Vegabréfsáritun
Allir skattar
Gisting allar næturnar
Fullt fæði
Flug innan Libyu
Keyrsla
Skoðunarferðir og aðgangseyrir á skoðunarstaði
Vatn og allir drykkir

Ekki innifalið
Tips til staðarleiðsögumanns og bílstjóra
Greiða þarf einhverja smáupphæð á rústastöðum (þ.e Leptis Magna og í Wadi Medkandusj) amk. þegar menn eru með vídeóvél.

Nokkur orð um:
Hótel í Tripoli, Ghadames og í Sebha sem eru prýðileg. Búðirnar eru einfaldar en í góðu lagi. Yfirleitt sofið í smáhýsum. Klósett og sturtur eru skammt undan. Nauðsynlegt að hafa vasaljós innan seilingar.
Veðurfar er hagstætt á þeim tíma sem ferðin er fyrirhuguð. Þó er nokkuð heitt inni í eyðimörkinni.

Þetta verður sérstæð og spennandi ferð, trúi ég og margt mun koma á óvart. Menn skyldu athuga að Líbía er ekki ferðamannaland svo aðbúnaður er sums staðar athyglisverður.
Held að óhætt sé að staðhæfa að við verðum fyrstu ferðamannahóparnir af Íslandi sem leita til Líbíu.

Ferðin greiðist þannig:
Staðfestingargjald verður að borga fyrir 10.mars 25 þús kr.
1.maí 50 þús
1.júní 50 þús
1.júlí 50 þús
1.ág 50 þús
1.sept 50 þús (þá skal einnig greiða fyrir eins manns herbergi sem er um 15000 kr)

Mun svo þegar nær dregur óska eftir að menn sendi mér vegabréf sem ég þarf að koma í skönnun til að áritunarmál verði í lagi við komuna.

Ætlunin er að kveðja skráða og staðfesta þátttakendur saman snemma í apríl til skrafs og ráðagerða

Athugið að áfengi er bannað í Líbíu og ekki má fara með það inn í landið. Því banni er mjög samviskusamlega framfylgt.


Ég skrapp í morgun að kanna hvernig byggingarsjóðnum okkar liði, þ.e. vegna væntanlegu nýju miðstöðvarinnar í Sanaa. Það hafði slæðst inn á hann en betur má sannarlega ef duga skal.
Þar sem ég luma á slatta af eintökum af Perlum og steinum og Ást á rauðu ljósi, bið ég nú félaga að koma snarlega til liðs. Ég vil selja þessar bækur og allt sem inn kemur fer rakleitt í byggingarsjóðinn.

Verð (með sendingarkostnaði) Perlur og steinar 1500 kr og Ást á rauðu ljósi 1100 kr.

Elsku, gerið það nú fyrir mig að panta þessar stórmerku bækur og hafið bak við eyrað að þótt gettubeturkeppendur í síðasta þætti myndu ekki nafnið mitt vissu þeir 17-19 ára hnullungar að viðkomandi móðir Elísabetar og Illuga hefði skrifað Ást á rauðu ljósi.
Það fannst mér milljón og því væri ráð að safna milljón í hvelli.
Vinsamlegast hafið samband og leggið inn á FATIMUREIKNING 1151 15 551212, kt 1402403979 og ég læt skutla bókunum til ykkar í hvelli. PLÍS.
Auk þess minni ég á gjafa og minningarkortin. Við eigum að nota þau við tækifæri sem gefast


Rétt í lokin: Núría hefur verið að senda mér plögg um krakkana nýju og ég póstaði í morgun til nokkurra og klára það eftir því sem hún sendir mér þetta. Vonandi að allt verði komið fyrir helgi.

No comments: