Wednesday, May 14, 2008

Jemen/Jórdaníufólkið kom í gærkvöldi-áríðandi orðsending, sjá neðst

Sælan daginn

Á flugvellinum í Jórdaníu í gær hittum við aftur fjórmenningana, Margrét, Brynjólf, Evu Júl og Guðrúnu Sesselju sem urðu eftir í Jemen og héldu til suðurs. Flug til London með Royal Jordanian hið prýðilegasta.
Hópurinn kom heim undir miðnætti í gærkvöldi. Allt í sóma

Síðasta kvöldið í Amman bauð Stefanía Khalifeh, ferðafélagi í Jemen, og ræðismaður okkur heim á sitt fallega heimili og við áttum þar ánægjulega stund. Ég þakkaði fyrir boðið og Sigrún Eygló sagði einnig nokkur falleg orð til mín.

Dvölin í Amman var hin ágætasta. Eftir að skrifað var frá Dauða hafi var farið upp á Nebófjall og til Madaba og síðar morgunstund til Jerash ofl.

Nú ætla ég að taka því rólega í dag en fljótlega læt ég ferðamenn í seinni Jemenferð vita um hvenær við hittumst vegna miða og ferðagagna.
Þá stendur fyrir dyrum myndakvöld Íranfara þann 19. maí og hefur Dóminik undirbúið það af röggsemi.

Ferðafélagarnir voru ánægjulegir og jákvæðir og taka sér nú væntanlega nokkurn tíma til að melta þau ýmsu áhrif sem við urðum fyrir í báðum löndum. Heimsóknin til krakkanna, fjallabæir og hnífadansar og klettahöll, matarveisla hjá Fatimu, förin til Wadi Hawdramaut og Manhattan eyðimerkurinnar og síðast en ekki síst gamla borgin í Sanaa svo nokkuð sé nefnt af því sem við gerðum í Jemen. Þá held ég að Petra verði öllum eftirminnileg, Dauðahafið, rómverska borgin Jerash og vitjun upp á Nebófjall.
Dagarnir voru notaðir vel, en einnig frjáls tími og hans nutu menn út í æsar því þegar menn eru á rólinu einir og sjálfir lifist ýmislegt sem færi ella framhjá manni


Við skipuleggjum svo myndakvöld eftir að ég kem úr seinni ferðinni.

Nú hafa 103 farið til Jemen. Af þeim fullyrði ég að 101 hafi verið ánægður og flestir meira en það. Hlutfall sem una má ljómandi vel við.
Ég kvaddi flesta ferðafélagana á flugvellinum í gær og bið að heilsa þeim sem ég náði ekki að kveðja.

VEGNA SKYNDILEGRA VEIKINDAFORFALLA ERU LAUS 2 SÆTI I SEINNI JEMENFERÐ. VInsamlegast bendið vinum á þetta.

2 comments:

Anonymous said...

Eiginlega væri fróðlegt að vita hverjir þessir tveir eru sem hafa ekki náð sambandi við ferð til Jemen og Jórdaníu. Getur verið að það sé vandamál í gangi hjá þeim?
Kveðja
BS

Anonymous said...

Jæhérna, geta einhverjir verið leiðinlegir í Jemen???
Kveðja
Dominique