Saturday, August 2, 2008

Líbíuáætlun og dagsetningar - ítreka að menn skrái sig í ferðir


Líbískir dansarar

Góðan dag

Þó svo margt sé að stússa vegna væntanlegs markaðar skal ferðum ekki gleymt.
Hef pússað Líbíuáætlun og sett hana inn á sinn link. Sumir hafa borgað með skilum og takk fyrir það. Aðrir hljóta að gera það eftir verslunarmannahelgi.
Hef fengið myndir frá hótel Safari í Tripoli - okkar stað þar- og það lítur fjarska viðkunnarlega út.

Þá skal tekið fram að fundur með Sýrlandsförum sem leggja í ' ann 7.sept verður upp úr 20.ágúst og óskað eftir að allir mæti að sækja sína miða ofl. Nokkrir eiga eftir að greiða síðustu 20 þús en margir hafa lokið greiðslu. Fínt mál.

Nærri mánaðamótum sept/okt verður fundur með báðum Líbíuhópum. Nánar um þetta hvorttveggja síðar.

Svo fer að líða að því að Jemen/Jórdaníuhópar efni í sín myndakvöld. Læt vita um það.

Minni ykkur á að við verðum náttúrlega þátttakendur í maraþoninu á menningarnótt og geta menn hlaupið þar fyrir Fatimusjóð eða heitið á hlaupara. Þetta gekk undravel í fyrra og bætast örugglega einhverjir við núna.

Ég vænti þess að mannlífið fari að komast í eðlilegan farveg eftir helgina. Þá væri líka gott að heyra frá styrktarfólki Jemenbarnanna okkar því æði marga vantar. Hvorki meira né minna en ríflega fjörutíu. Nýir styrktarmenn óskast líka. Það sýnist mér á öllu.

Uppfærði Íranáætlun og bætti við einum degi. Á leið frá Isfahan gerum við stans í vinjaborginni Kashan, undur fagurri borg með mörgum merkum stöðum.
Gistum því 2 nætur á Laleh og betri tími gefst til að fara á Þjóðminjasafnið og etv á Krúnusafn ofl. síðasta daginn.
Hann hefur verið í dálitlu stressi í tveimur síðustu ferðum en þetta er hagstæð lausn. Verð er með fyrirvara eins og í aðrar. Það vona ég að allir átti sig á.

Nánari upplýsingar um Kákasuslandaferðina kemur í næstu viku og þá bráðabirgðaverð líka.

Þá skal ítrekað að menn skrái sig í ferðir ársins 2009 FYRR EN SÍÐAR. Ég verð að hafa mjög góðan fyrirvara á öllum ferðunum sem eru á dagskránni. Þetta hef ég sagt svona tvö hundruð sinnum áður. Virðist ekki alltaf duga til. Vinsamlegast látið svo síðuna ganga.

Munið að við höfum opið í Síðumúla 15 (gengið eða keyrt austanmegin við húsið) á þriðjudag kl. 16-20. Tekið á móti góðum varningi á markaðinn okkar. Látið endilega sjá ykkur.

Hafið það forkunnargott um helgina.

No comments: