Saturday, September 27, 2008

Kornhlöðufundur hinn besti- síðustu ferðir árið 2009

Sæl öll og takk fyrir síðast fundargestir góðir

ÞAR SEM PÓSTUR er bilaður hér bið ég ykkur vinsamlegast að senda þetta áfram því ég get ekki sent tilkynningu nema til fárra

Mánudagur: Tæknistjórinn og eðalklipparinn Elísabet Ronaldsdóttir kippti gömlu tölvunni í lag. Svo ég ætla að senda tilkynningu til fólks.

Á sjötta tug skrifuðu í gestabókina á fundinum áðan sem lukkaðist mjög vel.
Mörður Árnason var fundarstjóri en áður en skipan hans var afráðin sagði ég fáein þakkarorð til félaga vegna Perlusúks enda framlag félaga í því máli mikilsvert og ómetanlegt hvernig sem á málin er litið.

Dóminik Pledel Jónsson talaði um verðlagningu ferða og hvað einatt er lítið að marka fyrstu verðlagningu hjá ferðaskrifstofum ; venjulega bætist við alls konar kostnaður sem ekki er frá skýrt í fyrstu. Því hefur sem sagt ekki verið til að dreifa í VIMA ferðunum þótt ég hafi verið tilneydd að hækka Sýrlands/Jórdaníuferð svo og Líbíuferðir. Það var gert með fyrirvara.

Aðalræðumaður var svo Guðríður Guðfinnsdóttir sem var búsett í áraraðir í Jórdaníu og er tiltölulega nýflutt heim. Hún sagði frá því hvernig sér hefði verið tekið þegar hún settist þar að. Hún benti líka á að hefðir réðu oft meira en trúin þegar svokölluð "kúgun kvenna" er í augum vestrænna, lýsti nokkuð fjölskyldumálum þarlendra og sýndi svo myndir með upplýsingum um Jórdaníu nútímans. Margir lögðu spurningar fyrir Gurry og svaraði hún öllum vel og greiðlega og afar góður rómur gerður að hennar máli.

Eftir að menn höfðu svo úðað í sig kaffi og tertum héldu fundarstörf áfram og Mörður gaf mér orðið.

Ég lýsti því að ferðir ársins 2009 lægju frammi en verð væri ekki gefið upp enda varla fært fyrr en síðar.

Mæltist samt til þess að menn skráðu sig í ferðir og það fyrr en síðar og verð kæmi jafnskjótt og unnt væri.

Einnig skýrði ég frá því að ferðir ársins 2009 verða þær síðustu sem ég mun standa fyrir og sló þá þögn á viðstadda(!)
En sannleikurinn er sá að þessar ferðir hafa orðið svo vinsælar og eftirsóttar að ég get varla sinnt öðru - og svo að auki stúss við Fatímusjóðinn - og ég hef annað í huga árið 2010 ef guð lofar og allt það. Þó ég hafi haft af þessu ómælda ánægju og kynnst undursamlegu fólki verður einhvern tíma að láta staðar numið. Hagnaðurinn hefur heldur ekki verið í samræmi við undirbúning og fararstjórn - og þetta er ekki sagt í píslarvættistón. Þetta er bara staðreynd og sjálfri mér um að kenna.

Samt er engin ástæða til að örvænta en menn ættu að taka nótis af þessari ákvörðun og skrá sig í ferðirnar 2009 og það fyrr en síðar.
Þegar vatnsberi hefur ákveðið sig, hann er stundum dálítið lengi að því, er hann ansi hreint staðfastur.

Ég set svo hér ferðir ársins og tekið skal fram að þátttakendur verða að vera minnst 20 til að úr ferð verði.
Þegar greiðsluáætlun liggur fyrir er NAUÐSYNLEGT að menn borgi á réttum dagsetningum og verður það ekki nógsamlega áréttað.

GJÖRIÐ SVO VEL OG LÁTIÐ VITA um hvaða ferðir þið kjósið.

Febrúar. Óman eða Egyptaland 12-14 dagar
Mars: Líbanon 8 dagar
Apríl: Íran 14 dagar
Maí Kákasuslöndin Azerbadjan, Georgía og Armenía 17 dagar
Lok maí/júní Jemen/Jórdanía 16 dagar

September: Úzbekistan/Kyrgistan 16-18 dagar ( að líkindum uppseld)

Á sunnudag var fundur tveggja Líbíuhópa. Sá fyrri fer út 10.okt og kemur 24.okt. Inga Jónsdóttir mun væntanlega leiða hópinn fyrri á heimleið. Sá seinni fer út tveimur dögum síðar. Ég kem ekki heim í millitíðinni, bíð í Tripoli, annað væri bara geggjun. Edda Ragnarsdóttir og Herdís Kristjánsdóttir hafa verið beðnar að stýra hópnum á leiðarenda í Tripoli- með gististoppi í London.
Þetta voru elskulega notaðlegir fundir, menn gæddu sér á sýrlensku gúmmulaði, kökum, döðlum og sætindum öðrum og drukku kaffi eða te. Margs var spurt og mér finnst ríkja tilhlökkun í báðum hópunum.

11 comments:

Anonymous said...

Þetta eru ekki góðar fréttir. Ertu alveg viss? Viltu endurskoða málið
Kveðja
Marín

Anonymous said...

Má þetta bara!!??

Anonymous said...

Bíddu við, hvað er átt við????
KvJK

Anonymous said...

Jóhanna, þú hefur opnað þennan heim fyrir svo marga sem hefðu aldrei getað farið þangað, þessi menning væri enn umvafin fjölmiðlanálgun, flestir eru rétt að átta sig á þessu. Margir koma til með að gera uppreisn þegar það fréttist að þú ætlar að hætta. Ég sé ekki hvernig það verður hægt, enda heyrðir þú athugasemdir á fundinum...!

Anonymous said...

Ég vona þú gerir þér grein fyrir því Jóhanna, að 9/a0 fara í þessar ferðir vegna þess að þú undirbýrð þær. Bið þig innilega að hugsa málið rækilega
Kveðja og þakkir fyrir ferðirnar
Kristín

Anonymous said...

Ég æalaði að segja níu af tíu. Kv. K. P

Anonymous said...

Jóhanna mín, takk fyrir allt hingað til og smá lengur ... og svo: GANGI ÞÉR SEM ALLRA, ALLRA BEST 2010 OG TIL 2041! (LÁGMARK)

Verst að ekki sé hægt að veita þér feitan starfslokasamning, nú eða heimanmund?! (*_*)

Eygló Uffsilon

Anonymous said...

Sæl Jóhanna,
Komst ekki á fundinn, en skil vel að menn hafi sett hljóða við þessa tilkynningu. En svona er lífið. Og svo ég hugsi á eigingjörnu nótunum, þá bætist við enn ein ástæðan til að gleðjast yfir að ég skuli hafa farið þessa ferð í vor. Ekki ætla ég að halda því fram að þú hafir búið þessi lönd til, en þú varðst til þess að ég sá tvö þeirra. Þakka þér. Ekki veit ég enn hvað verður næsta ár, ekki svo gott að ákveða það á glitnisdeginum mikla.
Allrabestu kveðjur,
Elísabet

Anonymous said...

Jóhanna mín kæra, með trega tek ég þessari ákvörðun þinni en líka með virðingu. Þú átt bara þakkir í mínum huga og þetta hafa verið gæfuspor að vera í þínum ferðum. Þú ert einstök og dýrmæt. Kv.Jóna.

Anonymous said...

Kæra Jóhanna,
ég vil helst ekki trúa því að þú sért að hætta. Þetta er eigingirni í mér, ég hef ekki ennþá farið í ferð með þér en hef hana alltaf í sigti.

Ef þú ferð til Íran í apríl, helst um páskana, en páskadagur er 12. apríl, þá hef ég áhuga. Veistu nokkuð um dagsetningar enn?

Með kærum kveðjum og þökkum fyrir skemmtileg skrif.
Edda Magnúsdóttir

Anonymous said...

Hamingjan góða - kæra Jóhanna.
Nú þykir mér týra á tíkarskarinu.

É er ansi hræddum að einhverjum bregði þú í brún sem hefur haldið að þú yrðir á ferðinni til eilífðarnóns.
Ég gæti sem best hugsað mér að taka þátt í einni ferð á næsta ári en nú er allt í háalofti með peningamál landans og maður veit ekkert hvort maður á fyrir ferðinni þeg ar þar að kemur. Ætli ekki verði búið að hirða af mann hverja einustu krónu ef áfram heldur sem horfir.
Verðum samt að lifa í voninni.
Kær kveðja,
Þóra Kristín
PS -lifi enn á ferðinni sem ég fór til Óman í fyrrahaust!