Tuesday, November 11, 2008

Sálin er komin- og þá er að huga að Jemenbörnum



Hafa þær fengið stuðningsmenn? Og umfram allt hafa þeir greitt???

Sæl öll
Sálin er mætt eftir langan svefn og hún er mjög lukkuleg með Líbíuferðirnar báðar.
Hóparnir voru ólíkir en einstaklega ljúfir og tóku uppákomum, misjafnlega þægilegum, með hugarró og húmor.
Fyrir það er ég þakklát og vona að Líbíuveran hafi verið sérstök upplifun. Og það hef ég raunar heyrt í imeilum og hringingum í dag. Og takk fyrir það.
Rúrí spurði mig hvort ég legði í að efna í aðra Líbíuferð þrátt fyrir nokkrar hremmingar beggja hópa. Eg held það svar hljóti að vera játandi.

Ég hef verið að rúlla í gegnum blaðabúnka í dag og öldungis rétt: ástandið er ruglaðra í þjóðfélaginu en þegar ég fór til Líbíu fyrir röskum mánuði.

En hafa menn gleymt börnum sínum
Það breytir því ekki að ýmsir höfðu tekið að sér Jemenbörn og ekki staðið við skuldbindingar. Sumir eru þeir sem ekki hafa borgað svo mikið sem krónu, aðrir kváðust vilja skipta greiðslu eins og boðið var upp á og þeir sem borga mánaðarlega standa sig með sóma.
UM TÍU BÖRN VIRÐAST HAFA GLEYMST Í GEÐSHRÆRINGUNUM. Það er ekki viðunandi að sýna ekki lit.

Þar sem afmælisframlög til Hildar Bjarnadóttur duga til greiðslu fyrir fjögur börn, áheit frá Rikharði og Sesselju fyrir eitt, Sijndri Snorrason borgaði fyrir fullorðinsfræðslukonu og verður nú settur sem stuðningsmaður eins barns.
Framlög frá Ágústu Harðardóttur og Guðrúnu Karlsdóttur fyrir eitt barn og Ólöf Arngrímsdóttir hefur gefið rausnarlega í minningarsjóð
Mun ég strika út þá sem töldu sig vilja styrkja börn en hafa ekki gert það og skrifa Johannatravel sem stuðningsmenn í staðinn og ætla ég auk þess að bæta við barni til viðbótar.
Þar með vantar fyrir tvö eða þrjú og ég skrifa þau líka á Johannatravel og breyti því ef ske kynni að menn tækju sér taki.
Enginn var neyddur til að styrkja þessi börn. Það skyldu menn hafa í huga og þar eð ég bauð upp á það frá því í sumar að skipta greiðslunni finnst mér bara lágmarkskurteisi að láta vita ef aðstæður hafa breyst eða menn vilja hætta.

Ég reikna með að fara til Jemen þann 11.desember n.k. og ræða þá við Núríu um húsamálin og afhenda henni lista með styrktarmönnum. Mér þykir ansi hart að þurfa að segja henni að menn sem höfðu lofað framlögum fyrir börnin hafi klikkað án skýringa.

Ferðir árið 2009
Æði margir hafa spurst fyrir hvernig verði með ferðir 2009- sem verður jafnframt síðasta árið sem ég verð með þessar ferðir

Ég held líka að menn skilji að því er varla hægt að svara nú og bíð til áramóta með það.
En mér þætti ágætt að vita um áhugann. Veit nú þegar um Uzbekistan og Kyrgistan. En hvað með Líbanon í mars, Íran um páska, Kákasus í maí og Jemen í maílok, Libíu í október. Það væri ágætt að heyra frá ykkur en að vísu gersamlega skuldbindingarlaust.

2 comments:

Anonymous said...

Kæra Jóhanna.
Var ég ekki örugglega búin að borga? Ætla rétt að vona það, en viltu senda mér harðorða áminningu ef ég hefði gleymt því.
Guðrún Sverrisdóttir.

Anonymous said...

Jú, Guðrún mín Þú ert búin að borga fyrir löngu og takk fyrir.
KvJK