Thursday, December 4, 2008

Undur má það kalla


Myndina tók Ólafía Halldórsdóttir í fyrri Jemenferðinni sl. vor

að tvær litlar jemenskar stúlkur sem höfðu fengið loforð um stuðning virðast hafa steingleymst. Einn drengur hefur sömuleiðis orðið út undan.

Alls eru 133 börn á styrktarskrá hjá okkur, þar af 94 stúlkur og 39 drengir. Af þessum hópi hefur verið fullgreitt fyrir 113, 17 styrktarmenn skipta greiðslu og langflestir standa við sínar greiðslur, nokkrir virðast hafa gleymt þrjú börn hafa gersamlega orðið útundan. Mér er hreint ekki skemmt yfir því.
Fatimusjóðurinn mun leggja út fyrir þau og greiða upp fyrir þau þar sem greiðslu er skipt enda er það í góðu lagi. Einnig hefur verið greitt að fullu fyrir Hanak háskólastúlkuna okkar úr sjóðnum.

Abdúllah, gæd í Óman í ferð tvö hringdi til mín í morgun og langaði að vita hvort Ómanferð yrði á dagskrá. Ég flutti smápistil um efnahagsástandið og við ákváðum að vera í sambandi. Ómanferðin er dýr, hvað sem líður gengismálum og lítið heyrst frá þeim sem áður voru áhugasamir.

Þá hafa Íranfarar (hugsanlegir) ekki látið mig vita um sín áform. Það er sjálfsagt ekki hægt að lá fólki það. Samt hefur verið ítrekað að það er allt skuldbindingarlaust og því mundi ekki skaða að láta frá sér heyra.

Líbíumyndakvöld verður með sóma og sann á mánudagskvöldið næsta. 43 hafa tilkynnt þátttöku og Ólafur S. hefur setið sveittur við og klippt saman mynd um ferðina og forvitnilegt að sjá hana. Einnig vonast ég til að fleiri komi með diska og almennt sínar myndir.

1 comment:

Anonymous said...

Það hefur gengið betur en ég hélt hjá mér í haust, ég ætla að bæta einni stúlku við sem styrktarforeldri. Það er ekki svo stór upphæð heldur...