Thursday, May 21, 2009

Hvað verður um Egyptó?



Sæl öll í þessari sólardýrð

Ég veit ekki alveg hvernig ég á að hefja þennan pistil því ég sé ekki betur en Egyptaland verði að blása af. Það hefur ekki bæst við þátttökulistann svo dugi til að af ferð verði. Það finnst mér verulega hart eftir að ég varð líka að aflýsa Líbíu.
Af sömu ástæðum.

Ég geri mér mæta vel grein fyrir því að margir eiga erfitt með að ákveða sig um þessar mundir og kannski ekki skrítið. Á hinn bóginn er ansi hreint leiðinlegt að fólk skuli ekki láta mig vita. Skal þó ekki vanþakkað að sumir hafa gert það.
Held Egyptalandi inni fram yfir Hvítasunnu en þá eru síðustu forvöð að tryggja að af ferðinni verði.

Íranfarar eru nokkru hressari og mér þykir sýnt að hún verði farin þó svo að þar sé sama uppi á teningnum og ég bíði svara frá SEX manns sem höfðu meira og minna tilkynnt sig.
Hugsanlegt er að beina þeim tilmælum til Egyptalandsfólks sem hefur ekki sótt Íran heim hvort þeir vilji skipta: ferðin er að vísu dýrari en miklu meira innifalið.
Að þessu spyr ég t.d. verðlaunahafann í getrauninni okkar, svo og Lindu Guðrúnardóttur.

Ekki hefur nema einn spurst fyrir um mína hugmynd um að skutla Óman inn svo því er sjálfhætt.

Hef sent Írönförum í apr tilkynningu um myndakvöld og bíð eftir svari því ég þarf að láta vita á Litlu Brekku hversu mörg við verðum.

Þá hafa Jemen/Jórdaníufarar margir látið frá sér heyra og eru afar ánægðir. Bið Þorgerði að senda mér hópmyndina sem var tekin í Sanaa svo ég geti komið henni áfram.

Marokkóhópurinn er í góðu standi og allir hafa borgað staðfestingu og minni á að þeir greiða svo næstu greiðslu nú um mánaðamótin.
Sendi greiðsluáætlun til Íranoktóberhóps fljótlega.

Þar sem ég er að enda þessi ferðalög að liðnu þessu ári þykir mér verulega leitt ef það endar með því að ég þarf að fella niður tvær ferðir vegna skorts á þátttöku þar sem ég veit mætavel að fólk er sátt og glatt með þessar ferðir.

Það er kannski partur af þessu heila galleríi að þurfa einlægt að vera að nuða og tuða. Get hugsað mér margt skemmtilegra.

Og því fer ég nú upp á fæðingardeildina á Akranesi og skoða tíunda barnabarnið, Hrafns og Elínardóttur sem kom í heiminn 20.maí og á að heita- getiðu nú.

5 comments:

Unknown said...

Sæl Jóhanna,
ég óska þér hjartanlega til hamingju með tíunda barnabarnið og giska á að barnið verði látið heita Jóhanna, sem er eitt besta nafnið nú um stundir. kkv, eva :O)

Anonymous said...

Til hamingju!!!!!!!
Ekki þó Jóhanna?
Kv. Edda

Anonymous said...

Allt er þegar þrent er: Jóhanna skal hún heita. Hjartanlega til hamingju með dömuna litlu og allan þinn ættboga þetta er ríkidæmi sem er ekki hægt að verðleggja. Sumarkveðjur úr Hveragerði frá okkur JHH. Jóna

Anonymous said...

Til hamingju með Jóhönnunni litla, kæra Jóhanna!

Damaskus er æðisleg! Búin að vera að skoða gamla bæinn út og inn og auðvitað kaupa dýrindis damaskushandklæði...;-)

Kær kveðja, Guðrún C. Emils

Anonymous said...

Heil og sæl. Til lukku með fjölgunina. Vissulega get ég skipt og skotist til Írans í stað Egyptalands, þótt Egyptaland heilli mun meira. En hugsanlega verð ég þá einn á ferð.

Reynir