Friday, July 2, 2010

Um Fatimusjóðinn

Um Fatimusjóðinn

Jemen er fátækasta ríki Arabaheimsins. Þar búa rösklega 24 milljónir og atvinnuleysi er mikið vandamál. Fjölskyldur eru stórar og algengt að hjón eigi 10-14 börn.

Þó skólaskylda sé að nafninu til er henni ekki framfylgt af yfirvöldum að gagni. Vegna fátæktar leggur fólk oft og skiljanlega meira kapp á að afla sér lífsviðurværis en senda börn í skóla.Talið er að um 60 prósent kvenna/stúlkna séu ólæsar.

Ég hafði komið til Jemens nokkrum sinnum og var þar við arabískunám einn vetur. Mér fannst átakanlegt hve staða fólks – einkum kvenna var bágborin og hvað stjórnvöld gerðu fátt til að bæta þar úr.

Þegar ég fékk verðlaun Hagþenkis í febrúar 2005 fyrir bókina Arabíukonur og átti afmæli daginn áður fannst mér kjörið að nota hluta af þessum verðlaunum til að stofna sjóð til að aðstoða jemenskar stúlkur. Og þó uppphæðin væri ekki stórkostleg og í aðra röndina hlægileg nýtast 350 þúsund krónur betur í Jemen en á Íslandi.

Ég nefndi hann Fatimusjóð í höfuðið á stúlku sem ég kynntist í Jemen þegar ég vann að Arabíukonum. Hún var 14 ára og hafði hætt í skóla því að ekki voru efni til að halda úti skóla í þorpinu hennar. Fatima var kotroskin og kurteis skörungsstelpa, baukaði við að læra ensku af lingvafónnámskeiði og dreymdi um að mennta sig.

Nú ætti Fatima samkvæmt jemenskum hefðum að vera gift og byrjuð að hlaða niður börnum. Nokkrir biðlar hafa bankað upp á en hún hefur hafnað þeim og kveðst ekki hugsa um hjónaband fyrr en hún hafi hlotið menntun. Fjölskylda hennar styður hana.
Eftir að spurðist út að íslenskir hefðu hug á að styðja jemensk börn í skóla var ákveðið að setja aftur á stofn skóla í þorpinu.

Þó svo að jemenskar stúlkur hafi sig lítt í frammi var ég viss um að svo hlyti að vera um fleiri stúlkur en þær hefðu ekki aðstöðu til þess vegna fátæktar.

Með því að greiða upphæð sem svarar 250 dollurum á ári kemst barn í skóla, fær skólabúning, skólavörur, reglulega læknisskoðun, leiðbeiningar og aðstoð við heimanám þrisvar í viku, hádegisverð – sem oft er eini maturinn sem börnin fá þann daginn- kennslu í handmennt, tónlist, íþróttum, leikrænni tjáningu og tölvukennslu þegar lengra var komið, flíkur fyrir hátíðir og fjölskyldan er studd með matargjöfum.
Fyrsta veturinn nutu 37 stúlkur stuðnings. Síðan hefur fjölgað í hópnum og undanfarin tvö ár hafa Íslendingar styrkt 133 börn þar af 94 stúlkur og 39 drengi.

Í ár ljúka 13 stúlknanna stúdentsprófi og þar með er skuldbindingu stuðningsmanna lokið.
Kosturinn við sjóðinn er lika sá að hann hefur enga yfirbyggingu, enga launaða starfsmenn. Bara mig og tölvuna mina og góðviljað fólk sem gerir sér grein fyrir því að hver króna sem lögð er í sjóðinn skilar sér. Eykur lífsgæði barna sem ella hefðu ekki komist í skóla og bætir þar með líf fjölda manns.

No comments: