Sunday, August 29, 2010

Póstkort frá Líbíu



Fyrri hópurinn sem fór í Líbíuför í okt. 2008

Þessa dagana rogast íslenskir bréfberar með fulla poka af póstkortum frá íslenskum ferðamönnum í Líbíu - frá því haustið 2008. Þetta er óneitanlega sérstakt en sýnir að þó svo Líbíumenn hafi öðruvísi tímaskyn en við, koma þeir öllu til skila á endanum og altjent virðast póstburðargjöld þar í landi ekki hafa hækkað síðan við vorum þar. Einhver kort mun líbíski leiðsögumaðurinn hafa tekið til að flýta fyrir en árangur hans er jafn athyglisverður og t.d. minn því ég póstaði kássu af kortum í Tripoli eftir að fyrri hópur fór heim og ég beið í 3 daga uns sá seinni mætti á svæðið.
Hvet sannarlega viðtakendur korta til að geyma þessi sögulegu póstkort vel og vandlega.

Þakka kærlega þeim sem hafa boðið sig fram í fréttabréfsútburð eftir rösklega hálfan mánuð og ánægjulegt ef fleiri gæfu sig fram.

Palestínufarar ljúka nú greiðslu um mánaðamót, sé ekki betur en Úzbekistan(fyrri ferð) sé á réttu róli en Íranferð hangir enn í hálflausu lofti en ég spái því að það endi allt með prýði.

Eins og áður kom fram verða dagsetningar seinni Úzbekistanferðar birtar mjög fljótlega.
Vonast að til að stuðningsmenn Jemenbarna - sem ekki hafa greitt- láti verða af því nú um mánaðamótin. Nokkrir strákar hafa hætt í skólanum vegna erfiðra heimilisástæðna og látnir fara að vinna íhlaupaverk en margir eru á biðlista svo allir sem hafa gefið sig fram og ekki fengið börn munu vissulega fá þau og þó fleiri væru. En þetta er nú harla gott í bili og kærar þakkir til ykkar allra sem takið þátt í þessu.

No comments: