Wednesday, August 4, 2010

Víst gerast ævintýrin enn ---vinsamlegast tilkynnið ykkur á sunnudagsfundinn


Frá miðstöðinni í Sanaa, tekið á móti íslenskum gestum með bravör

Mig langar til að segja ykkur frá dálitlu ævintýri. Í mig hringdi í gær sextugur öryrki sem hefur verið lamaður sl. tíu ár vegna heilablóðfalls. Hann sagðist vilja styrkja barn hjá okkur og bað mig að koma og við skyldum ganga frá þessu. Mér skildist hann hefði hug á að styrkja eitt barn.

Ég fór til hans í morgun og veitti viðtöku hundrað þúsund krónum! Mér fannst þessi rausn og höfðingsskapur ævintýri líkast. Hann ætlar að greiða með tveimur börnum og fjörutíu þúsund fer í Fatimusjóðinn. Þessi maður kærir sig ekkert um að nafn hans komi fram en ég gat ekki látið hjá líða að segja ykkur frá þessu. Þarna er á ferðinni maður sem á örlæti hjartans óskert þótt líkamlega sé hann skertur. Fyrir er þakkað innilega.

Ég hef ekki heyrt frá allmörgum vegna fundanna á sunnudag og bið ykkur lengstra orða að drífa í að tilkynna ykkur. Ef einhverjir hafa áhuga á ferðinni til Íran(þar má bæta við) eru þeir velkomnir skuldbindingarlaust. Sá fundur hefst kl. 14 á sunnudag í gamla stýrimannaskólanum við Öldugötu(fyrir enda Stýrimannastígs) Ákveðnir þátttakendur mæti endilega. Palestínufarar og Úzbekistanfarar greiði sína upphæð fyrir fundinn allra vinsamlegast.

Þá hefur komið fram sú hugmynd sem mér líst hreint ekki illa á að seinni ferðin til Uzbekistan verði haustið 2011 í staðinn fyrir að hafa hana strax á eftir þeirri í apríl. Fróðlegt væri að heyra skoðanir á því.

1 comment:

Anonymous said...

Það virðist mælast vel fyrir að hafa seinni Uzbekistanferðina að hausti, t.d. í sept. Mun athuga það.
Hins vegar vantar verulega á að fólk hafi tilkynnt sig á sunnudagsfundi. Þessir fundir eru haldnir til að fólk fái áætlanir og greiðslumál rædd og margt fleira.
Ég bið ykkur lengstra orða að láta mig vita ef þið komið eða ekki.
Einnig að menn hafi lokið staðfestingargjaldsgreiðslu, þ.e Uzbekistan og Palestína.
KvJóhanna