Thursday, December 30, 2010

Gæfuþrungið ár- Jemenbörn-mánaðamót ofl



GLEÐILEGT ÁR OG TAKK FYRIR ÞAU LIÐNU




Þessar myndir eru frá Eþíópíu. Það má láta sér detta í hug að sækja heim þetta eitt elsta og merkasta menningarríki heims? Þið látið vita.Menn hafa látið í ljós áhuga á því. Ég hyggst fara í könnunarleiðangur þangað seinna á árinu og sé svo til. Mætti hugsa sér að þetta yrði 12-14 daga ferð.

Náttúrufegurð er einstök í Egþíópíu, þar er dýra og plöntulíf einstaklega fjölbreytt, mannlífið margþætt og svo mætti áfram telja. Hef engar upplýsingar um tímasetningu, verð, áætlun og þess háttar fyrr en ég hef farið þangað.
EN mér þætti fróðlegt að vita hvort áhugi er á þess konar ferð.

Að kvöldi 1.jan hafa fjórtán skráð sig sem áhugasama. Svo það er ekki eftir neinu að bíða með að láta mig vita.

UPPLÝSINGAR UM JEMENBÖRNIN YKKAR VERÐA SENDA TIL YKKAR NÆSTU DAGA
Ég hef fengið allítarlegar upplýsingar um flest Jemenbörnin sem við styðjum. Ýmsar fréttir fylgja þar með. Nokkrar stúlknanna eru trúlofaðar eða "eru að svipast um eftir mannsefni" eins og það er orðað í upplýsingunum. Þar með snúa þær sér að öðrum málum en þær hafa að minnsta kosti fengið góðan grunn og engin þeirra sem hyggur á giftingu er yngri en 18 ára og hafa verið í skóla með stuðningi íslenskra sl ár.

Þessar upplýsingar verða senda fyrstu dagana í janúar þegar þær hafa verið lesnar saman og þýddar svo allir fái réttar upplýsingar. Nokkrir drengir hafa hætt að mæta en við fengum aðra í staðinn sem allir hafa stuðning.

Svona skýrslu hefðum við raunar þurft að fá á hverju ári.

Muna síðustu greiðslur fyrir Íran og Uzbekistan
Nokkrir hafa lokið greiðslum í Íran og Uzbekistan. Bið ykkur að gera skil strax um mánaðamót og borga þá einnig 80 dollara vegabréfsáritun til Írans Allir hafa greitt áritunargjaldið til Uzbekistan.
Eins og áður hefur verið sagt verður fundur með Íranförum fljótlega í janúar þegar vegabréfin eru komin heim, stimpluð og fín. Læt ykkur vita um það.

Endurtek nýárskveðjur mínar til ykkar allra.

Saturday, December 18, 2010

Bréf til sonar - myndakvöld Palestínufara milli jóla og nýárs?


Ætla að leyfa mér að vekja athygli á þessari bók Frá föður til sonar eftir Ahmed Hafez Awad. Í henni eru fimmtán bréf sem hann skrifaði Salah syni sínum á meðan hann var við nám í Bandaríkjunum á þriðja áratug 20.aldar.
Nú hefur sonarsonur höfundarins og alnafni Ahmed Hafez Awad sem hefur verið búsettur á Íslandi í 45 ár látið þýða bókina úr arabísku yfir á ensku og síðan fékk hann Gunnar Rafn Jónsson og Valbjörgu Fjölmundsdóttur til að koma henni á íslenskt mál og er bókin nú komin út.
Awad selur bókina sjálfur og ef þið hafið áhuga á henni bendi ég ykkur á að hafa samband við hann á netfanginu awad@centrum.is
Awad eldri og höfundur var útgefandi og ritstjóri virts tímarits í Kairó á sínum tíma sem hét Kawkab al Shark sem mætti útleggjast stjarna Austursins

Þar sem ég fékk þessa bók í hendur í dag hef ég ekki lesið hana en ugglaust fróðlegt að kynna sér þann hugarheim sem í henni birtist á þeim tíma sem bréfin eru skrifuð.


Myndakvöld Palestínufara?
Hef verið að íhuga hvenær heppilegt væri að efna til myndakvölds Palestínuhópsins góða. Mér hefur dottið í hug að það mætti hugsa sér það milli jóla og nýárs eða fljótlega eftir áramótin. Vona að flestir séu nú langt komnir að skipuleggja myndir. Verð í sambandi um það og veit að Helena og Baldvin verða á landinu milli jóla og nýárs og gaman væri ef þau gætu verið með á myndakvöldinu.

Að öðru leyti: Íranvegabréf hafa tafist vegna margra frídaga í Íran. Mun koma þeim til skila jafnskjótt og ég fæ þau í hendur, stimpluð og fín.

Thursday, December 2, 2010

Mynd af duglegu tombólustúlkunum. Og fundur um Írak?


Hér er myndin af duglegu stúlkunum í Fossvogsskóla sem efndu til tombólu til styrktar Fatimusjóði og ég hef sagt frá. F. v. Tara Jónsdóttir, Margrét Friðriksson, Elísabet Friðriksson, JK, Halldóra Þórsdóttir, Marta María Stephensen og Þórunn Guðmundsdóttir.

Það var mjög gaman að hitta stúlkurnar og heyra þær lýsa skoðunum sínum og áhuga á að hjálpa stúlkum í Jemen til að geta gengið í skóla og eins og sjá má af plakatinu höfðu þær undirbúið þetta af kostgæfni og afraksturinn var líka eftir því, ríflega 32 þúsund krónur. Þeim eru færðar þakkir enn og aftur og mættu fleiri taka þær sér til fyrirmyndar.

Menn borga nú sem óðast
inn á ferðir til Íran og Uzbekistan og takk fyrir það. Vona að allir ljúki greiðslu í síðasta lagi á morgun því ég verð að húrra mér í að senda næstu greiðslu á báða staði strax á mánudag.
Einnig hafa æði margir í seinni Uzbekistanferð greitt staðfestingargjald og þurfa að einnig að drífa í því í síðasta lagi á morgun.

Fundur um Írak?
Við í stjórn VIMA höfum mikinn áhuga á að efna til fundar um stöðu mála í Írak. Við leggjum drög að því að fá ræðumann sem hefur búið og starfað þar um alllanga hríð og þekkir til þeirra mála betur en flestir. Þar með gæti einnig verið að fundurinn yrði fyrr en venja hefur verið með janúarfundi en ég þykist þess fullviss að menn setji það ekki fyrir sig. Læt ykkur fylgjast með.