Tuesday, February 1, 2011

Á minn herra öngvan vin? milljónir manna í miðborg Kairó


Hermaður hampar stúlkubarni uppi á skriðdreka. Skriðdrekar og hermenn um allar trissur en herinn heldur enn að sér höndum. Ljósm. Ramy Raoof

Eins og hefur komið fram í fréttum í dag er milljón manns á aðaltorginu, Tahrir, í Kairó þessa stundina. Her og lögregla setti upp tálma og leitaði á þeim sem lögðu leið sína þangað. Menn virðast þó hafa komist með ýmsa gripi þangað, svo sem brúðu af Múbarak, líkkistu og fleiri táknræna muni. Á dagskránni er að ganga síðan að heimili Múbaraks í Heliopolis og krefjast afsagnar hans.
Þetta er æðilangur vegur og fái hópurinn að ganga þangað munu sjálfsagt margir bætast við á leiðinni.
Ætla má að þessi ganga og mótmæli í dag séu prófsteinn á það hvort hernum verður fyrir alvöru sigað á mótmælendur og ættu menn endilega að fylgjast með fréttum seinna í dag um þetta.

Að vísu herma fréttir- en að vísu er erfitt að greina milli sögusagna og frétta þessa stundina að Múbarak sé hvergi nærri, hann hafi skutlað sér yfir til Sjarm el Sjek í bústaðinn væna sem hann á þar. Synir hans tveir og eiginkonan Susan fóru úr landi fyrir fáeinum dögum.

Margir furða sig á þvermóðsku Múbaraks en hún þarf út af fyrir sig ekki að koma á óvart þeim sem hafa fylgst með ferli hins riðandi forseta. Völdin eru sæt og völdin spilla og það hefur vissulega orðið raunin með Múbarak. (Auk þess er hann í stjörnumerki sem þekkt er fyrir að láta ekki svo glatt undan þrýstingi)

Mohammed el Baradej- verður næsta framtíð hans?
Raddirnar sem hvetja til að Múbarak fari og fylkingar nái samkomulagi um að Mohamed El Baradej taki við til bráðabirgða eru sterkari nú en fyrir nokkrum dögum. Það hefur orðið honum til styrktar að múslimabræður hafa gefið út tilkynningu að þeir sætti sig við hann og séu allir af vilja gerðir að vinna með honum.

Baradej er fæddur í Kairó 17.júní 1942. Hann nam lög við Kairóháskóla og eftir framhaldsnám í fræðunum í Bandaríkjunum hóf hann störf í egypsku utanríkisþjónustunni. Hann var í fastanefnd Egypta hjá Sameinuðu þjóðunum og í Genf. Hann var í nokkur ár sérlegu ráðgjafi utanríkisráðherra Egyptalands og var valinn í samninganefndina sem dró upp friðarsamning við Ísraela og er kenndur við Camp David.

Hann aflaði sér mikils álits eftir að hann var skipaður yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar þó svo Bandaríkjastjórnir hafi ýmsar haft horn í síðu hans þar sem niðurstöður þeirra Hans Blix þegar þeir könnuðu mál Íraka vegna hugsanlegra gereyðingavopna þar sem gætu réttlætt innrásina í Írak 2003, komu ekki heim og saman við það sem Bandaríkjastjórn taldi sér hagstætt og ákvað að lokum að leiða niðurstöðurnar hjá sér.

Baradej er kvæntur og á tvö uppkominn börn.

Á minn herra öngvan vin?
Múbarak er ekki vinmargur maður þessa dagana en einn leiðtogi hefur þó komið fram á sjónvarsviðið og lýst eindregnum stuðningi við hann. Hvatt einnig aðra til að fylgja sínu fordæmi enda sé það stórhættulegt ef Múbarak þurfi að fara frá.
Og hver skyldi sá veruleikafirrti hagsmunanáungi vera: Auðvitað Benjamin Netanjahu, forsætisráðherra Ísraels.
Ég segi veruleikafirrti vegna þess að stuðningur forsætisráðherra Ísraels verður umfram margt annað vatn á myllu andstæðinga Egyptalandsforsetans. Og mun ekki vekja neina kæti í öðrum Arabaríkjum. Þetta sýnir auðvitað líka hve Ísraelar eru skjálfandi á beinunum eins og vikið var að í tölu minni á VIMA fundinum sl. sunnudag.

Raunar komust þær sögur á kreik þótt þær flygju ekki víða að Ísraelar væru að undirbúa að veita Múbarak pólitískt hæli.
Og ég leit nú satt að segja á dagsetninguna þegar ég las þetta.

Jemen er kyrrt en viðræður forseta og stjórnarandstöðu í gangi
Allt er með kyrrum kjörum í Jemen eins og er og bíða menn átekta. Ali Abdullah Saleh forseti hefur byrjað miklar viðræður við aðal stjórnaranstöðuflokkinn Islah og þegar ég talaði við kunningja í Jemen fyrr í dag sögðu menn að þeim virtist eitthvað miða og forsetinn vildi mikið til þess vinna að ná samkomulagi sem þýddi væntanlega umtalsverðar tilslakanir af hans hendi.

Vegabréfaeftirlit til Jemen hefur verið hert til mikilla muna og reynt að fylgjast með því að grunaðir öfgamenn komist ekki inn í landið. Það láta þeir sem ætla sér að kynda undir þar sjálfsagt ekki stoppa sig og tiltölulega auðvelt er að lauma sér inn frá Sádi Arabíu enda ekkert eftirlit þar á löngum köflum og landamærin löng.


http://dagskra.ruv.is/ras1/4560662/2011/01/31/Ef menn fara inn á þennan link hjá RUV er þátturinn Hringsól frá því í gær, mánudag. Einhverjir kynnu að hafa áhuga.

1 comment:

inga óskars said...

Komst því miður ekki á fundinn að þessu sinni en hlustaði á fróðlegt erindi þitt í útvarpinu í gær. Maður fylgist spenntur með framvindu mála