Tuesday, May 31, 2011

Allt skólahald úr skorðum í Jemen



Vegna fyrirspurna sem ég hef fengið varðandi börnin í Jemen tel ég rétt að segja ykkur það litla sem ég veit:

Ófriðurinn sem nálgast borgarastyrjöld með ógnarhraða hefur haft margvísleg og skelfileg áhrif. Skólahald barna hefur að mestu verið í lamasessi og ekki útlit fyrir að börn ljúki skólaárinu, þ.e. þau sem hafa stundað skóla.
Krakkar hafa tekið þátt í baráttunni gegn Ali Abdullah Saleh og sum verið drepin en mér er ekki kunnugt um hvort einhver "okkar barna" hafa látið lífið.

Fréttir eru mjög misvísandi um það en auðvitað er rétt að vona það besta.

Ég hef í hyggju enn að fara til Jemen í sumar, trúlega í júlí, ef um hægist en það er auðvitað óráðið og ekkert gagn að því nema maður telji að það skili einhverju.

Það er með ólíkindum hversu stuðningsmenn forsetans hafa komist upp með að láta hann hanga við völd þótt öll raunveruleg áhrif hans fari þverrandi og margir úr hans ættbálki og nánir samstarfsmenn hafi gengið í lið með uppreisnarmönnum.

Einhverra hluta vegna hefur afar lítið heyrst um Tawakool Kerman, blaðakonunnar sem í raun hrinti þessu öllu af stað og var í fararbroddi lengi vel. Sumir segja að hún sé í fangelsi og aðrir að ættbálkahöfðingjar hafi ýtt henni til hliðar og vilji síst að kona sé áberandi í andstöðunni.

Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að koma á einhvers konar friði: Flóaríkin, Óman, Bahrein, Katar, Kúveit, Sameinuðu furstadæmin og Sádi Arabía hafa reynt að miðla málum= fá Saleh til að fara frá völdum, þar sem hann mun ekki njóta neins trausts héðan í frá. Sendimaður sambandsins kom til Jemen á dögunum og Saleh kvaðst tilbúinn að skrifa undir og fara frá. En hann virðist bara snúast eins og vindurinn og þegar undirskriftarathöfnin var tilbúin neitaði hann þverlega að fara og benti á að það mundi brjótast út styrjöld ef hann yfirgæfi þjóð sína í þrengingum. Þetta er í senn grátlegt og fáránlegt því auðvitað er borgarastyrjöld löngu skollin á þó menn hiki við að kalla óeirðirnar því nafni.

Hundruð ef ekki þúsundir manna hafa verið drepnir og öðrum er mokað inn í fangelsin og fréttir berast af pyndingum.

Allt er þetta með ólíkindum og þó ekki. Jemenar eru ekki færir að leysa sinn vanda af aðskiljanlegum ástæðum og ekki kæmi mér á óvart þótt Sádar stæðu í leyni á bak við forsetann- til dæmis með vopnasendingum og alls konar aðstoð. Sádum er að sumu leyti hagur í því að Jemen molni í frumeindir sínar og þá gætu Sádar komið eins og frelsandi englar, " stillt til friðar" og tekið völdin í landinu. Auðvitað er þetta ágiskun en hún er ekki eins fráleit og ýmsum kann að finnast.

No comments: