Wednesday, August 17, 2011

Dagsetningar á seinni Eþíópíu breytast ekki - líklega blásin af Íran 2



Góðan daginn öll.

Ætlaði bara að árétta að seinni Eþíópíuferðin verður 31.mars til 17.apr. 2012 eins og áformað var. Hafði hugsað mér að færa hana um nokkra daga en svo verður sem sagt ekki.
Athugið það.
Enn er hægt að fá pláss í þeirri ferð, sú fyrri er uppseld og fólk hefur sýnist mér greitt skilvíslega sitt staðfestingargjald. Takk fyrir það.

Hafði á prjónunum Íranferð í sept 2012 um norður og vesturhluta Írans vegna þess að margir virtust áhugasamir. Áætlun er tilbúin en nú vantar hins vegar þátttakendur, við þurfum að vera 20 til að verð haldist sem vit er í.
Það er langt í ferðina en mér heyrist samt vera hik á mörgum svo ég býst við að hún verði blásin af. Best að bíða samt aðeins. Málið er að geti ég ekki tilkynnt ferðaskrifstofunni um þetta fyrr en síðar gerist bara eitt: ferðin hækkar enn.

Nokkrir hafa staðfest að þeir komist ekki og aðrir eru hikandi. Bíð þó fram í ágústlok með að hætta við ferðina því þetta landsvæði sem farið er um í nýju áætluninni er öldungis heillandi. Þið látið frá ykkur heyra en sem stendur sýnist mér aðeins 6-8 ákveðnir.
Uzbekistanseptemberfarar búast senn til brottferðar og allt gott um það að segja.

Þá fer ég í Íranferð(okkar áætlun) í október fyrir Bændaferðir og er komin 25 manna þátttaka í hana. Mér skilst að í hana megi þó bæta við.

Ekki blæs byrlega í Jemen

Sennilega verður ekki af því að ég skutlist til Jemen eins og mig hafði langað til að gera í þessum mánuði. Hef reynt að hafa samband við kunningja þar en ástandið er mjög viðkvæmt og hefur ekki skánað eftir að forsetinn Ali Abdullah Saleh, sem hefur verið í læknismeðferð í Sádi Arabíu í tæpa 2 mánuði - segist nú ætla að snúa heim.

Þá brutust út óeirðir einn ganginn enn. Kunningjar mínir segja mér að eins og málin standa núna sé ekki búist við að skólahald verði með eðlilegum hætti og er það m.a. ástæðan fyrir því að við verðum að bíða um sinn með það að taka upp stuðning við krakkana þar.

Sýrland í loga
Þarf ekki að fara mörgum orðum um ástandið í Sýrlandi en þar virðast hörmungar engar endi taka og Basjar Assad forseti hefur klúðrað öllu svo gersamlega að þungbærara er en tárum taki.

Námskeið hjá Mími símennt í nóvember

Vil taka fram að Mímir símennt hefur beðið mig halda námskeið í nóvember um ástandið í Miðausturlöndum. Það verður 2ja kvölda námskeið. Þar verður lögð megináhersla á þá atburði sem hafa átt sér stað síðustu mánuði og reynt að ígrunda og greina það.
Einnig verður talað um stöðu kvenna, trúna og sögu 20.aldar í þessum heimshluta.
Hvet ykkur til að fylgjast með því þegar Mímir sendir frá sér bæklinginn sinn.

No comments: