Wednesday, November 23, 2011

Eþíópíuferðir eru báðar fullsetnar/ Verður eitthvað að marka loforð Saleh, forseta Jemens nú?


Jk við fossa Bláu Nílar

Sæl öll og takk fyrir síðast á góðum fundum um helgina.

Vil bara láta þess getið að báðar ferðirnar eru nú fullsetnar og þó ég skrifi á biðlista er mjög ósennilegt að einhverjar breytingar verði.

Bið alla vinsamlegast að greiða á réttum tíma og þakka raunar góða skilvísi í þeim efnum. Næsti greiðsludagur er 1.des.

Við höfum ákveðið að taka með okkur skóladót, blýanta, stílabækur, yddara ofl. límmiða,sápur, þvottapoka, fótbolta og kannski nokkur töfl. Það eru litlar skólabyggingar alls staðar og reynt að halda uppi kennslu en skólar eru mjög vanbúnir.

Hef haft samband við ferðaskrifstofustjórann okkar og hann mun velja skólana sem við heimsækjum.

Þetta mæltist mjög vel fyrir á báðum fundunum og allir vita nú hvað þeir eiga að taka með. Fannst ágætt að hafa það svo ella hefðu kannski margir keypt það sama.


Frá Kandovan
Hótelið sem verðum á er hoggið inn í kletta og er mjög sérstakt. Skemmtileg herbergi

Íran- ný áætlun
Er nú að bíða eftir nýju Íranáætluninni sem er í sjálfu sér að mestu tilbúin en vantar flugmiðaverð og því læt ég aðeins bíða að setja áætlunina inn. Reikna má fastlega með að hún verði birt í lok desember.
Mér sýnist þó ljóst að verð hækkar enda hefur merkilegt nokk tekist að halda verði á Íranferðunum óbreyttum sl 4 ferðir. Það má búast við að ferðin kosti um 490 þúsund, en það er sagt með fyrirvara.

Hún er áætluð í september 2012 eins og fram hefur komið og við byrjum hana í Tabriz í norðvesturhlutanum. Fljúgum heim frá Teheran þar sem ekki er fáanlegt flug frá Isfahan eins og ég hefði kosið.

Býst við að í þessa ferð muni einkum fara félagar sem hafa áður sótt Íran heim en auðvitað eru nýir velkomnir. Ég hef skrifað niður nokkurn hóp en flestir með spurningamerki og væri afskaplega hentugt ef þið létuð mig vita um áhuga.

Áætlunin virðist vera mjög spennandi og fyrir utan Isfahan sem ég held að enginn vilji sleppa er að öðru leyti farið á nýjar slóðir.



Verður eitthvað að marka orð Saleh nú frekar en áður?

Þær fréttir berast frá Jemen að Ali Abdullah Saleh, forseti sé kominn til Sádi Arabíu og þar muni hann skrifa undir að hann afsali sér völdum í hendur varaforseta landsins á næstunni. Þetta samkomulag var unnið af stjórnum Flóaríkjanna og S.þ.

Þessar fréttir eru auðvitað ánægjulegar í sjálfu sér en öllu verra hlýtur þó að teljast að þau eru ótalin loforðin sem Saleh hefur gefið um það að hann sé tilbúinn að víkja en þegar komið hefur af efndum hafa þær gufað út í buskann og eftir situr jemenska þjóðin með þennan illræmda forseta sem hefur stjórnað landinu á fjórða áratug.

Hann hefur verið beittur þrýstingi af ýmsum innanlands sem utan að fara til að koma í veg fyrir að átökin haldi áfram í landinu eða það brjótist jafnvel út borgarastyrjöld. En Saleh á líka aðskiljanlega stuðningsmenn sem eiga ríkra hagsmuna að gæta um að hann fari alls ekki og þeir hópar hafa látið að sér kveða og lýsa nú hinni mestu andstöðu við þessa samningagjörð.

Auðvitað væri óskandi að Saleh tæki pjönkur sínar og hypjaði sig en sjálf er ég í stórum vafa um að hann standi við þau orð sín nú. Það hefur sýnt sig að hann er slóttugur og ber fyrir sig að hann njóti óskoraðs stuðnings og það sé bara óþjóðalýður sem vill að hann fari.

En guð láti gott á vita: Kannski bregður hann út af vananum, stendur við orð sín og víkur. Fyrir jemenska þjóð væri það besti kosturinn þó ekki sé þar með sagt að allt mundi umsvifalaust falla í ljúfa löð í þessu fátæktarinnar og fegurðarinnar landi.

No comments: