Friday, March 23, 2012

Stúlkan sem við styrktum í Axum


Stúlkan Semutra ásamt 2ja ára barni sínu. Með á mynd JK og Daoud leiðsögumaður.
Máni Hrafnsson tók myndina


Þegar fyrri Eþíópíuhópurinn var í Axum í norðurhluta Eþíópíu á dögunum settumst við m.a. við kaffiathöfn úti fyrir litlu og skemmtilegu safni við obeliskana þar. Stúlkurnar sem mölluðu kaffið eftir kúnstarinnar reglum voru allar fjarska þægilegar og athygli okkar vakti að ein bar barn á baki allan tímann.

Daoud leiðsögumaður sagði mér undan og ofan af sögu hennar: Hún heitir Semutra og er 25 ára gömul. Hún hafði lokið tveimur árum í háskóla í einhvers konar stjórnun í Addis þegar hún varð ólétt eftir kærasta sinn. Nokkru áður en barnið fæddist fórst hann í bílslysi og fjölskylda hennar- sannkristin skyldi maður ætla- varð svo yfir sig reið að þau höfðu ekki gift sig áður, rak hana að heiman og útskúfaði henni.
Þá hélt Semutra til Axum og átti þar sitt barn sem nú er 2ja ára. Hún hefur margsinnis reynt að ná sáttum við fjölskyldu sína en þau vilja ekkert með hana hafa að gera því hún gerði fjölskyldunni skömm til að eignast barn ógift.
Hún getur ekki haldið áfram í skóla af því hún hefur engan stuðning við gæslu barnsins og þiggur aðeins þau laun sem hún fær fyrir kaffimallið.

Þegar Daould hafði sagt mér sögu hennar og leyfi hafði fengist frá stúlkunni að segja hópnum frá aðstæðum hennar ákváðum við að slá saman í dálitla upphæð handa henni til að auðvelda henni lífið í allra næstu framtíð.

Ég veit ekki nákvæmlega hvað safnaðist, umslag var látið ganga og ég sá aðeins að menn voru rausnarlegir. Hún kom og hitti okkur kvöldið sem við vorum í Axum og þakkaði okkur fyrir og lét í ljós innilegt þakklæti og sagði þetta vera sér styrk og stuðning og sýna velvilja hópsins og hjálpfýsi..

Vonandi hittum við Semutru og stráksann hennar nú í seinni ferðinni og fréttum af högum hennar. Þessir peningar eru engin framtíðarlausn en þeir auðvelda henni vonandi lífið um hríð og gætu e.t.v. orðið til að hún hefði efni á betra húsnæði því hún og drengurinn búa í einu herbergi með takmörkuðum þægindum.

1 comment:

Anonymous said...

Svo æðislega gaman að skoða allar þessar fallegu myndir úr ferðini bæði góður ljósmyndari og fallegt myndefni.Verður ganman að fylgjast með næstu ferð líka og aftur núna á ég mikilvægar persónur í ferðini þinni.
Kveðjur frá Malmö