Thursday, March 1, 2012

Teppasýningu lokið - leiðin liggur til Eþíópíu á laugardag

Góðan og blessaðan dag

Teppasýningin tókst vel og nú eru piltarnir flognir heim harla ánægðir með sýninguna og almennt með dvölina hér.
Við efndum í kveðjukvöldverð með Íranförum daginn eftir að sýningu lauk og var hann vel heppnaður og ég hef aldrei séð Pezhman leiðsögumann vefjast tunga um höfuð og klökkna yfir því að hitta þarna marga ferðafélaga úr hinum ýmsu ferðum.

Matur bragðaðist vel og mynd Högna var sýnd og sömuleiðis nokkrar myndir Hrafns. Afar vel lukkað kvöld og um sjötíu manns mættu. Þór Magnússon, fyrv þjóðminjavörður talaði, Inga Hersteinsdóttir sagði nokkur góð orð og afhenti þeim gjafir, auðvitað gat ég ekki látið hjá líða að hvetja fólk til að skála til lífs og til gleði.Veislustjórn var í höndum Hrafns Jökulssonar.

Eftir að sýningunni var lokað var þeim boðið í Borgarfjörð fyrir forystu Rikharðs og Sesselju, var farið í Reykholt á fund sr. Geirs Waage, að Barnafossum og Þorvaldur og Margrét á Hvanneyri kynntu þeim ísl. hestinn og loks var kjötsúpa í boði Kolbrár og Ólafs á Hóli.

Áður höfðu þeir skroppið dagstundir á Þingvöll, upp í Hvalstöð, skoðuðu Þjóðminjasafn undir leiðsögn Þórs, skoðað Hellisheiðarvirkjun og boðið heim til Þorkels og Margrétar, Ingu Hersteinsd, Guðlaugar Pétursdóttur og Guðrúnar Guðm. og Rúnars Helga Vignissonar. Allt tókst þetta ljómandi vel og þeir fóru alsælir af landi brott aðfararnótt þriðjudags.
Nú tekur við að ganga frá aðskiljanlegri skriffinnsku, greiða Vask, aðra skatta, sækja um yfirfærsluunanþágu ofl og það verk hefur Iris Anna Randversdóttir tekið að sér.
Held að teppasalan hafi gengið að óskum og mörgum fannst líka bara skemmtilegt að kíkja inn, sitja við tedrykkju og horfa á þessar gersemar.

Fyrri hópur leggur af stað til Eþíópíu á laugardag

og er brottför kl. 8,30. Allir hafa fengið bréf þar um þar sem Icelandair staðhæfir að við getum tjekkað farangur alla leið til Addis Abeba. Reyni að komast í tölvu öðru hverju og skrifa pistla um ferðina. Við erum 30 og sama talan í seinni ferð sem hefst 31.mars.
Það verður spennandi að sjá hvernig Eþíópía virkar á fólk, mundi undrast ef menn kæmu ekki lukkulegir heim.

ÍRANFERÐ í SEPT n.k
Áður en við förum þ.e. á morgun mun ég senda þeim sem hafa skráð sig áhugasama í nýju ferðina til Íran í sept. bréf og biðja þá að staðfesta og segja þeim hvenær þarf að borga staðfestingargjald ofl Ferðin sýnist vera hátt í fullskipuð, byrjað í Ta´briz í norðvestri, farið á slóðir Kúrda og til Kandovan, Hamadan og víðar og einnig er komið vil Isfahan. Annað er óhugsandi.
Lýsing á ferðinni er hér á síðunni undir IRAN.

Munið að senda ykkar fólki kveðjur og skrifa inn á ábendingadálkinn og hvet alla þátttakendur til að skilja eftir wwww.johannaferðir.blogspot.com svo menn geti fylgst með okkur á glænýjum slóðum.

1 comment:

Anonymous said...

Góðan daginn flott ferð hjá ykkur gaman að hafa þessa síðu til að frétta af ykkur. Góð kveðja til Margrétar og Brynjólfs frá okkur á Laugaveginum ( Hildur)