Saturday, April 28, 2012

Ljóðið eftir Svein Einarsson ort í Eþíópíuferð hinni seinni.





Afrísk ljóð
I.

Bláfuglarnir mínir í Bahir Dar
bláir eins og firrðin hér
en snögg hugskot inn í
nálægðina

hvítir pelikanarnir
í skerjabyggðum á Tana-vatni
handan allrar áþreifanlegrar
nærveru
eins og skýin
sem þeir spegla sig í
en við fljótum framhjá 
og förum í klaustur
að hjala við bernskar
helgimyndir.

Svo er haninn
í Lalibela
sem heldur að
dagurinn sé eilífur morgunn
og veit varla mikið
um ellefu kirkjur kóngsins;
hefur þó hlutverki að gegna,
því að hver nýr dagur felur i sér von
ekki síður en kirkjur.

Og ógleymdar eru
ólbelískurnar í Axom
undur og stórmerki,
furða númer átta
úr einum granítkubbi,
þar sem mannsshugurinn
tók sér fyrir hendur
að teygja sig upp til skaparans
- eða jafnvel uppfyrir hann
og svo verður að segjast eins og er:
ein hrunin,
önnur skökk,
þeirri þriðju verður stolið
í næstu átökum
og aldrei skilað aftur.

En blessuð akasían horfir á,
akasían með áhuga sinn
á flatarmálsfræði
og kann bót meinanna sjö.


II.

Og suðrið
suðrið heitt.
Strákur við vegkantinn
eins og hin trén
og allt í einu er hann ekki lengur tré
en skellir fótunum ótt og títt
í dansi.
Og réttir svo fram lófann.

Heilt þorp,
heill þjóðbálkur
skreytinakinn,
nektarskreyttur
og allt falt.

Væri ekki ráð að skrifa ríkisstjórninni
eða bara slá á þráðinn
og minna alþjóðasamflélagið
eða hvað kúbburinn nú aftur heitir
á
að það er eins og dugi ekki
að taka eitt og eitt barn í fjarlægðar-fóstur
þau eru of mörg
og of svöng
og vegurinn er enn ekki tilbúinn.

III.

Og samt:
Afríska kvöldkyrrðin
með sitt viðkvæma samband við eilífðina,
afríska vonmorgunskíman
með þessi opnu sjálfglöðu augu

Undarlega Afríka
hjúpuð heitri sól.


No comments: