Wednesday, May 9, 2012

Skýrsla Jóhönnu K á aðalfundi VIMA 28.apr. 2012

Sæl öll.

Ég býð alla velkomna á þennan síðasta aðalfund Vináttu og menningarfélags Miðausturlanda.

Þegar við hófum þessi ferðalög var aldrei ætlunin að úr þessu yrði það sem smám saman þróaðist, í mesta lagi hugsaði ég að kannski mætti fá fólk í tvær þrjár ferðir til Sýrlands og Líbanons og síðan ekki söguna meir. Því var heldur aldrei hugsað að þetta yrði e-s ferðaskrifstofa heldur ferðaklúbbur og þannig hefur VIMA alltaf starfað.

Ástæðan fyrir því að þetta byrjaði allt saman var eins og margir vita að ég hafði ferðast sem blaðamaður um Miðausturlönd og síðar verið þar búsett við arabískunám og skriftir. Mér blöskraði fáfræðin og fordómarnir og var orðin hundleið á að heyra lofsöngva um einstakan kjark minn að þora " að vera innan um þennan lýð" eins og einn fyrverandi hæstaréttardómari orðaði það svo ógleymanlega. Mig langaði að kynna þennan heimshluta og fólkið sem þar byggi en mig óraði vissulega ekki fyrir þeim undirtektur sem ferðahudmyndir mínar fengu.

Að sönnu var stundum hvíslað að mér að ég skyldi ekki hafa hátt um þetta, því viðkomandi rígfullorðin börn sumra væntanlegra ferðafélaga mundu þá banna enn rígfullorðnari foreldrum að fara í þessar hættuferðir. Þetta leið hjá smátt og smátt en eimdi lengi eftir af þessum hugsunarhætti.

En fólk áttaði siv fljótt á því að þessi lönd sem við byrjuðum á, Sýrland og Líbanon, voru ólík og löngun vaknaði að sjá fleiri og þar með var boltinn farinn að rúlla. Jemen og Jórdanía bættust við og svo kom upp áhugi á Egyptlanadsferð sem ég hef þó ekki lagt áherslu á. Aðeins þrjár ferðir í allt enda stóð ekki til að fara í samkeppni við ferðaskrifstofur sem stoku sinnum og nú reglulega, bjóða upp á Egyptalandsferðir.

Þess í stað var afráðið að kynna Óman sem er jafn gerólíkt t.d. Sýrlandi og Jemen og hugsast getur. Sjálf hefði ég kosið að við hefðum farið fleiri ferðir þangað en tvær því ferð til Óman gerir- það er trúa mín allavega- alla að ögn betri manneskjum. En ferðir þangað eru í dýrari kantinum og þátttaka fékkst ekki nema í þessar tvær. Þá komu Kákasuslöndin til greina og ein ferð var þangað og hefur því miður ekki verið endurtekin.

En þá kom fram hugmyndin um Íran- upphaflega frá Þuríði Árnadóttur. Eftir tvær rannsóknarferðir þangað 2005 hefur svo verið ein eða tvær Íransferðir ár hvert síðan. Þegar óvísindaleg könnun var gerð meðal félaga sem höfðu farið í margar ferðir reyndist Íran yfirleitt standa upp úr.
Mér fannst Íran ekki bara fráleitt heldur hlyti það einnig að vera óframkvæmanlegt. Þrátt fyrir að telja mig svona fróða og vísa um þennan heimshluta, þótti mér einhvern veginn að Íran hefði bara stoppað eftir byltinguna 1979. Eins og í sögunni um Þyrnirós. En kom svo í þjóðfélag sem var á fljúgandi ferð, undursamlegt fólk, einstakar minjar og saga. Engu líkt.

Auðvitað á maður ekki að bera lönd saman, þar ræður svo ótal margt. Hverju skyldi tekið á eigin forsendum og ekki má gleyma að líðan og hugarfar okkar sjálfra þegar í ferðina er farið ræður þar líka miklu.

Það er merkilegt - nú þegar ástandið í Arabaheiminum er erfitt, sársaukafullt og þversum að við skyldum t.d. komast til Líbíu í tvær ferðir. Og vorum þar akkúrat meðan bankahrunið gekk hér yfir. Þá þeystum við um sandöldur Sahara, teygðum okkur upp á næturstjörnur og syntum í saltvötnum eyðimerkurinnar.

Ekki skyldi Palestína gleymast. Mögnuð verð  sem vakti með okkur blendnar tilfinningar að horfa upp á framgöngu Ísraela og yfirlæti þeirra og yfirgang gagnvart Palestínumönnum, þjóðinni sem hefur búið í þessu landi í sátt og friði við fáeinar gyðingafjölskyldur fram að stofnun Ísraelsríkis 1948. Þegar Vesturlönd ákváðu að búa til ríki til að sefa eigin sektarkennd og láta undan þrýstingi þess volduga gyðingalobbíis sem þrífst harla blómlega einkum í Bandaríkjunum.

En vegna ástandsins í löndum Araba var ákveðið að færa út landamærin og tvær ferðir voru við orðan orðstír til Uzbekistan og þar með var einn heimurinn enn kominn á kortið okkar. Sá heimur víkkaði enn nú á vornóttum þegar tveir hópar, 60 manns héldu til Eþíópíu. Sú lífsreynsla mun örugglega vera að meltast í höfðum okkar.

En nú lýkur þessu senn


Nú eru ferðirnar sem sagt orðnar 39 og mál að linni. Ein ferð með nýrri áætlun til Írans í haust og því sem næst fullskipuð. Eina ferð kannski til Eþíópíu í október ef þátttaka fæst og síðan er þessu lokið. Ég veit að ég gaf yfirlýsingu í þessa veru fyrir tveimur árum en nú er mér fullkomin alvara. Hef þegar hafnað tveimur hópum sem vilja fara annars vegar til Líbanon og Jórdaníu og hins vegar til Uzbekistan.

Þessum kafla er lokið og verður ekki tekinn upp af mér á ný. Það verður ekkert ýkt um þá miklu ánægju sem ég hef haft að kynna "löndin mín" fyrir fólki og bæta svo nokkrum við eins og Uzbekistan, Kákasuslöndunum og Eþíópíu.
Við í stjórn VIMA töldum að með því að ferðunum er hætt væri starfssemi VIMA sjálfhætt. Við viljum ekki láta það dragast upp. Fundarsóknin hefur verið nánast einstök og fundirnir hafa byggst á að kynna ferðir og fjalla um málefni þeim tengdum.
Eftir allar ferðir- raunar nema seinni ferðina til Óman í denn tíð- hafa verið myndakvöld sem oftast hafa verið afskaplega vel sótt. Menn hafa endurlifað þá ferð sem nokkru áður var farin.
Ég held óhætt sé að segja að flestir séu ríkari eftir reynslu þessara ferða og þær upplifanir í sögu, mannlífi, menningu og minjum sem við höfum kynnst þar.

Fólk sem hefur farið í þessar ferðir er almennt mjög skemmtilegt fólk, forvitið, opið og fróðleiksfúst. Það er gaman að vera með slíku fólki og ég og fleiri hafa tengst vináttuböndum við marga sem hafa verið þátttakendur í því sem ég vil leyfa mér að kalla fyrir mína parta, vinnusamt ævintýri.

Ég gæti talið upp þá sem hafa verið til ama í þessum ferðum. Það er góð niðurstaða þegar haft er í huga að um þúsund manns hafa tekið þátt í þeim. En ég vil heldur dvelja við þá alla hina sem með félagsskap sínum hafa verið einstakir, hver og einn og allir.

Framúrskarandi fyrirlesarar og afleit félagsgjaldaskil

Þetta er nú ansi langur formáli en mér fannst hann þurfa að vera ítarlegur þegar við efnum hér í síðasta fundinn. Við megum vel rifja upp að ekki aðeins á síðasta starfsári VIMA heldur allar götur frá stofnun hafa fundaefni verið fjarskalega vel heppnuð. Við höfum fengið til okkar afbragðs fyrirlesara sem sjaldnast hafa tekið krónu fyrir þrátt fyrir að hafa lagt mikla vinnu í að undirbúa sig. Fyrir það er þakkað kærlega enda væri VIMA fyrir löngu farið á hausinn ef þeir hefðu tekið fyrir það sem sanngjarnt og eðlilegt hefði talist.

Því félagsmenn hafa verið duglegir að ferðast og sækja fundi en þeir hafa verið afskaplega tregir að greiða félagsgjöld. Með góðum og traustum undantekningum og oftast þeim sömu. Það er til vansa en verður kannski líka að skrifast á okkur í stjórn VIMA, við höfum ekki verið nægilega ötular við að minna á félagsgjöldin. Það hefur verið gert á síðunni minni með reglulegu millibili og það hefur verið gert á hverjum einasta fundi. En ekki dugað til.
Jafnvel hafa sumir sett mig í þá ferlegu stöðu að greiða ekki félagsgjöldin fyrir ferð eins og lög mæla fyrir um og samgönguráðuneytið setti sem skilyrði til að þetta teldist klúbbur og gæti því hvenær sem er og fyrirvaralaust óskað eftir að sjá kvittanir okkar.
Ég man líka hverjir það eru sem hafa borgað skilvíslega. Því ég er svo góð í nöfnum, altso...

Starfssemi 2011-2012


Að svo mæltu er rétt að snúa sér að þessu starfsári. Aðalfundur var 7.maí og að loknum aðalfundastörfum flutti Guðlaugur Gunnarsson, fyrv. kristniboði í Eþíópíu sérlega fróðlegt og áheyrilegt erindi með góðri myndasýningu um Eþíópíu. Nokkrum dögum síðar fór ég svo í könnunarferð á þessar slóðir og að henni lokinni voru settar upp tvær Eþíópíuferðir, su fyrri í marsbyrjun og hin seinni í marslok. Þrjátíu manns í hvorri ferð. Ég efa ekki að erindi Guðlaugs átti drjúgan hlut í því hve fljótt ferðirnar fylltust.

Haustfundur var 1.október og talaði Birgitta Jónsdóttir, alþingismaður og ræddi um kynni sín af tilverurétti Palestínumanna eins og hún kallaði erindi sitt.

Þriðji fundur starfsársins var 22.janúar og ræddi þá Þorbjörn Broddason, félagsfræðiprófessor um sögu fréttastöðvarinnar Al Jazeera í tölu sem hann kallaði arabíska eylandið. Þetta var afbragðs góður fundur enda Þorbjörn áheyrilegur og skýr og vék ekki aðeins að starfi Al Jazeera og áhrifum hennar í atburðum liðinna missera heldur einnig um hvaða þýðingu hún hefði haft á fjölmiðlun í heiminum.

Þrjú fréttabréf komu út og jafnan í tengslum við fundina til að spara okkur auglýsingakostnað. Þar hefur efni
verið fjölbreytt og það á við um hið síðasta eins og öll hin. Nú hafa 18 fréttabréf frá því útgáfa þess hófst 2006.

VIMA hefur orðið að treysta á félagsgjöldin til að greiða fyrir allan kostnað við fréttabréf, útburðarkosntað og því hefur hvert félagsgjald sem hefur verið greitt eða ekki greitt skipt máli. Harma ber að fólk hefur einnig verið tregt að senda breytt heimilisföng.

Í ritnefnd fréttabréfsins frá uppphafi hafa verið Birna Karlsdóttir, Guðrún Halla Guðmundsdóttir, Oddrún Vala Jónsdóttir, Sigurbjkörg Ásgeirsdóttir, Dóminik Pledel Jónsson, Vera Illugadóttir, Hulda Waddel(sem lést fyrir nokkru)  og Inga Hersteinsdóttir. Allar hafa þær unnið hið besta starf sem þakkað er fyrir af alhug.

Guðlaug Pétursdóttir, gjaldkeri VIMA hefur gjarnan lagt gjörva hönd á plóg þegar fréttabréfið hefur komið út svo og Edda Ragnarsdóttir, varaformaður og stundum hafa fleiri lagt fram lið. Það þarf að gera fleira en skrifa það og leiátera, það þarf að merkja það, halda utan um póstlista og sjá um að koma því í dreifingu.

Í fréttabréfum ársins hafa verið margar ágætar greinar af öllum toga, s.s. um Jemenkrakkana okkar, um sunníta og sjíta, um Zaraþústra, greinar um Uzbekistan og Eþíópíu, ljóðaþýðingar, bækur, kvikmyndir, hljóðfæri, sögu Afganistan, Arabíuvorið og svo mætti lengi telja.

Fatimusjóður í biðstöðu og teppapiltar


Þá skal þess getið að Fatímusjóður og starf hans hefur verið í biðstöðu af nokkuð augljósum ástæðum. Ég vona að það mál skýrist í sumar og við getum tekið upp þráðinn fyrr en síðar að styrkja fátæk börn í skóla eins og gert var í tæp sex ár. Frá því verður jafnótt sagt á síðunni minni.

Þess skal minnst að stjórn VIMA með aðstoð fleiri greiddi götu  teppapilta okkar í Baharestanverslun í Íran svo þeir komu með glæsilega teppasýningu hingað í febrúar. Frá þessu segir í fréttabréfinu. Þetta útheimti mikla vinnu en var að hinn mesti menningar og gleðiauki.

Stjórn VIMA hefur haldið fundi sína á heimilum stjórnarmanna eftir því sem þurfa hefur þótt. Auðvitað hefur aldrei verið rukkað fyrir neinar veitingar né almennt neina snúninga og risnukosnaður nákvæmlega enginn. Ég vil leyfa mér að halda fram að rekstur þessa félags hafi verið með þeim ódýrari sem þekkist.. Það á einnig við um fundi stjórnarFatimusjóðs
Mér þykir rétt að geta þessa við þau tímamót sem hér verða og ég vil þakka stjórnarkonum afskaplega gott samstarf. Þær hafa verið með mér í þessu bauki öllu saman og ekki talið eftir sér viðvik og amstur. Samstarfið hefur verið mjög gott en ég ætla að öðrum ólöstuðum að nefna Gullu pé sem einnig hefur veitt mér alls konar aðstoð við undirbúning ferða og fyrirlestra og ekki talið eftir sér að koma eftir vinnudag, brunandi vestur í bæ til að leysa úr alls konar vanda sem mér hefur tekist að setja mig í, einkum hvað tæknimál varðar.

Þetta hafa verið góð ár. Ein ferð er eftir og í henni ríkir vonandi sama gleðin og hefur einkennt langflestar ferðirnar 39.
Takk fyrir að mæta á fundi og sýna áhuga. Takk bara fyrir að taka þátt í þessu ævintýri.







No comments: