Tuesday, June 19, 2012

Verkefni hjálparstarfsins í Eþíópíu.


Hér eru myndir af vatnsþrónum sem ég hef verið að tala um að við styrkjum. Ein vatnsþró, þ.e. gerð hennar og viðhald kostar 1,5 milljónir. Þetta hefur mælst mjög vel fyrir og við í Fatimusjóð gleðjumst mjög yfir því. Bíð nú eftir svari frá Bjarna Karlssyni hjá Hjálparstofnun kirkjunnar og síðan verður upphæðin lögð inn á reikning hennar og ég hef óskað eftir því að við fáum að fylgjast með framvindu málsins.



Þar sem Máni og Högni gerðu forkunnargóða diska úr ferðunum sem seldir voru á myndakvöldi og ýmsir hafa auk þess lagt inn peninga til þessa ætlum við hóparnir að nota þá upphæð til að styrkja tíu konur- fer vel á að gera það í dag 19.júní. Þeim eru veitt smálán 10 þúsund krónur hverri til að koma af stað litlu fyrirtæki eða einhverju því sem bætt gæti líf þeirra og fjölskyldna þeirra. Í þriðja lagi munum við styrkja gerð tíu kamra, hver þeirra kostar 8,500 kr. 
Fatimusjóðsstjórn fer svo á fund hjá UNICEF á morgun til að fræðast um hvort samtökin geta liðsinnt okkur til að koma þremur milljónum til sveltandi barna til Jemen þar sem ástandið er afskaplega slæmt eftir óeirðir í landinu s.l. ár. Ef okkur sýnist það fýsilegt munum við ganga til samstarfs við þau samtök. Ef ekki þá leitum við betur.

4 comments:

Anonymous said...

Til fyrirmyndar og ég er þakklát að hafa svona framtakssamar konur í stjórn VIMA að taka þátt í að gera þessi mikilvægu verk. Kveðjur og þakkir. Jóna Einarsdóttir.

Anonymous said...

Gleður mig að heyra um þessi áform ykkar í sjóðsstjórn. Gæti ekki verið betra.
Sigga Ásgeirs

Garún said...

Sýnist peningunum vel varið í þessi verkefni. Styð það heilshugar og þakka fyrir frábært starf hjá VIMA.

Anonymous said...

Gaman að lesa góðar fréttir um
góð verk. Gangi Fatímusjóði allt
í haginn.
Halla G.