Friday, August 17, 2012

Fórnarlömb átaka í Sýrlandi aðstoðuð með 5 milljónum frá Fatimusjóðnum á Íslandi



Fórnarlömb átaka í Sýrlandi aðstoðuð með 5 milljónum frá Fatimusjóðnum á Íslandi
Fatimusjóðurinn hefur lagt fram fimm milljónir króna til aðstoðar fórnarlömbum átakanna í Sýrlandi. Rauði krossinn á Íslandi veitti styrknum viðtöku í dag og munu Alþjóða Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn í Sýrlandi nýta féð til að aðstoða óbreytta borgara sem orðið hafa illa úti vegna átakanna þar í landi.
„Þetta eru mest framlög frá einstaklingum hér á Íslandi sem vilja hjálpa venjulegu fólki sem er skyndilega lent í miðri styrjöld og hefur þurft að flýja heimili sín. Ég bjó í Sýrlandi í tæpa þrjá vetur og hef komið þangað ótal sinnum að auki, bæði ein á ferð og með hópa frá Íslandi.“ segir Jóhanna Kristjónsdóttir, stofnandi og forsvarsmaður sjóðsins. „Mér er því sérlega umhugað um að við gerum eitthvað til að hjálpa Sýrlendingum á þessum erfiðu tímum.“
Neyðarástand ríkir í Sýrlandi. Vopnuð átök hafa verið viðvarandi um margra mánaða skeið í borgunum Aleppo, Homs og hluta Damaskus. Þúsundir manna hafa þurft að flýja heimili sín og halda nú til í fjöldahjálparstöðvum í Sýrlandi eða flóttamannabúðum erlendis. Þessi hópur treystir alfarið á  mannúðaraðstoð Rauða krossins sem víða í landinu er eini aðilinn sem getur séð þolendum átakanna fyrir brýnustu nauðsynjum.
„Íslendingar hafa sýnt það ítrekað að mannúð fer ekki í manngreinarálit. Þjáningar fólks í Sýrlandi koma greinilega við hjörtu Íslendinga sem hafa sýnt vilja sinn í verki með því að gefa í Fatimusjóðinn.“ segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Konur og börn eru sérlega berskjölduð í stríðsátökum og við munum stýra þessari aðstoð til þess hóps.“
Á síðustu þremur vikum hafa Alþjóða Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn í Sýrlandi dreift sjúkragögnum til að sinna særðum í Homs og Damaskus og séð um 100.000 manns á átakasvæðum fyrir mat, hreinu drykkjarvatni og bættri hreinlætisaðstöðu. Nærri hálf milljón óbreyttra borgara sem flúið hefur átökin hefst nú við í fjöldahjálparstöðvum, skólum og öðru húsnæði. Alþjóða Rauði krossinn gerir ráð fyrir að aðstoða um 1,5 milljónir manna í Sýrlandi á árinu.
11.000 sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans í Sýrlandi sinna sjúkraflutningum, skyndihjálp, neyðarvörnum og neyðaraðstoð oft í lífshættulegum aðstæðum. Þá hefur Alþjóða Rauði krossinn 50 starfsmenn á sínum snærum í Sýrlandi.
Nánari upplýsingar:
Jóhanna Kristjónsdóttir, stofnandi Fatimusjóðsins, 897 6117, jemen@simnet.is
Þórir Guðmundsson, sviðsstjóri hjálparstarfssviðs Rauða krossins, 894 9005, thorir@redcross.is
-----
Myndatexti: Guðlaug Pétursdóttir, Jóhanna Kristjónsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir í stjórn Fatimusjóðsins ásamt Kristjáni Sturlusyni, framkvæmdastjóra Rauða krossins og Þóri Guðmundssyni, sviðsstjóra hjálparstarfssviðs við afhendingu styrksins.

No comments: