Tuesday, January 22, 2013

Unnið við vatnsþróna

Þessir menn vinna af kappi við gerð birkunnar (vatnsþróarinnar) sem Fatimusjóður greiddi fyrir. Tuttugu og fimm menn hafa unnið við verkið sem nú er á lokastigi. Mennirnir fremst á myndinni munu svo starfa við að afhenda íbúunum vatnshreinsitöflur, gefa leiðbeiningar þeim sem koma að sækja vatn og sjá um almennt eftirlit og viðhald.

Thursday, January 17, 2013

Vatnþró Fatimusjóðs í Eþíópíu á góðu róli

Sæl veriði
Fékk þær upplýsingar frá Hjálparstofnun kirkjunnar í gær að nú er langt komið að byggja vatnsþróna okkar í Eþíópíu en Fatimusjóður lét 1,8 millj. af hendi rakna til þessa verkefnis.
Einnig söfnuðu Eþiópíufarar í ferðunum okkar fyrir tíu smálánum að upphæð 10 þúsund kr. hvert sem úthlutað er til kvenna til að hjálpa þeim til að koma á fót atvinnustarfssemi, svo og  greiddum við fyrir nokkra kamra sem komið verður upp þar sem ástæða þykir til.

Við vatnsþróna verður komið upp skilti þar sem íbúum er óskað til hamingju með hana og sagt að hún sé gjöf Fatimusjóðs á Íslandi.

Hjálparstofnun kirkjunnar mun senda okkur myndir líklega í mars n.k. og verða þær þá birtar hér á síðunni.

Síðustu daga hef ég staðið fyrir fjársöfnun á Facebook síðu minni til hjálpar sýrlenskum flóttamönnum sem búa við ólýsanlega neyð, kulda og matarskort við landamæri Jórdaníu. Ég ákvað að safna hálfri milljón og það hefur nú tekist en ef lesendur og fyrv. félagar í VIMA vilja taka þátt í þessu er það vel þegið  Nr. er 342 13 551212 og kt 140240 3979.

Þá skal þess getið að ástandið fer nú batnandi í Jemen og sums staðar er skólahald að komast í horf á ný. Vonast til að komast þangað í lok febrúar eða byrjun mars og væri afar ánægjulegt ef við gætum tekið upp þráðinn á ný og styrkt börn í skóla.
Þið látið kannski frá ykkur heyra.

Tuesday, January 15, 2013

Ragnhildur Árnadóttir látin



Góður VIMA félagi, Ragnhildur Árnadóttir, er látin eftir erfiða baráttu við krabbamein. Ragnhildur var sjúkraliði að mennt og starfi og óhætt að segja að hún hélt ekki til í trafeskjum um dagana. Hún var fráskilin til margra ára en átti tvo syni sem voru hennar augasteinarnir hennar þótt það æxlaðist nú svo að annar byggi erlendis lengst af.
Ragnhildur var fædd 6.ágúst 1938.

Ég kynntist Ragnhildi þegar hún fór í fyrstu ferð með okkur til Jemen og Jórdaníu. Hressileg kona og lá ekki á skoðunum sínum, en mjúk og elskuleg manneskja og vildi öllum gott gera. Seinna fór hún með í fyrstu ferðina til Íran og síðar til Kákasuslanda. Alls staðar skemmtilegur ferðafélagi og  ein af þessum góðu og vesenislausu manneskjum sem er gott af hafa nærri. Hana dreymdi um að koma með til Uzbekistan en var þá orðin veik og ákvað að hún mundi hrista af sér sjúkdóminn og koma í seinni ferðina. Þegar það reyndist heldur ekki gerlegt sló hún sér á lær og sagði við mig: Þá læt ég ekkert stoppa mig og verð með til Eþíópíu. Ekki tókst það að heldur en hún hélt áfram að berjast eins og það ljón sem hún var,hjólaði, dansaði línudans og lét eins og þetta væri allt á réttri leið.
Ragnhildur var traustur VIMA félagi, hún studdi af litlum efnum jemensku stúlkuna Feirús til mennta og hún sótti fundi VIMA af hinum mesta áhuga.

Ragnhildur var góð og traust manneskja, skapmikil og skapljúf, viðkvæmur hrossabrestur og heiðarleg fram í fingurgóma.